144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er sammála því markmiði frumvarpsins að ef við verðum að láta undan evrópska regluverkinu og opna aftur á það að menn geti tekið gjaldeyristengd lán verði reynt að standa þannig að því að áhætta bæði viðkomandi aðila og hagkerfisins sé lágmörkuð með öllum tiltækum ráðum. Það er vissulega rétt sem bent er á hjá hæstv. fjármálaráðherra og er í frumvarpinu að í eðli sínu er ekki neinn munur á beinu erlendu láni, láni í tiltekinni erlendri mynt og láni sem er erlent í þeim skilningi að það er tengt og breytist með gengi erlends gjaldmiðils eða erlendrar gjaldmiðlakörfu. Að því leyti er ósamræmi í sjálfu sér á stöðunni eins og hún er í dag og hefur verið frá því að bann við gengistryggðum lánum var innleitt.

Það þarf ekki að fjölyrða um reynslu okkar af þessum ósköpum. Hún liggur fyrir og má spara tíma með því að fara ekki í löng ræðuhöld um það. Þetta var allan tímann ákaflega ógæfulegt og óskynsamlegt og hluti af gagnrýnis- og andvaraleysinu sem ríkti þegar það komst í tísku að það væri hvað gáfulegast að skuldsetja sem duglegast í erlendum lánum. Það voru í raun ótrúlegir hlutir sem gerðust eins og þegar sveitarfélögin í landinu allmörg héldu inn á þessa braut, aðallega á árunum 2005–2008, jafn fráleitt og það er að A-hluti sveitarsjóðs með allar tekjur sínar í íslenskum krónum skuli fara að spila á þessum markaði, svo maður tali nú ekki um einstaklinga með kannski sína verðmætustu og stærstu fjárfestingu á ævinni, íbúðarhúsið sitt. En þannig var tíðarandinn og fyrir þessu var rekinn heilmikill áróður.

Jú, vextirnir voru vissulega lágir og það var orðin býsna útbreidd skoðun að hér væri í gangi eitthvert séríslenskt efnahagsundur. Menn höfðu fundið upp eilífðarvél, hér gæti orðið endalaus vöxtur og góðæri og mundi engan endi taka. Þannig töluðu margir, þannig töluðu bankamenn og virðast hafa trúað á það margir hverjir, a.m.k. framan af. Þannig töluðu því miður stjórnvöld líka. Hér var forsætisráðherra í landinu sem einhvern tíma á árinu 2005 að ég held eða snemma árs 2006 sagði úr þessum ræðustóli að það væri öfundsvert að vera forsætisráðherra í landi þar sem allt gengi svona vel. Mér er þetta mjög minnisstætt því það voru ekki nema um tvö ár þangað til allt var hrunið. Það er almennt mjög óskynsamlegt, menn þurfa ekki að vera doktorar í hagfræði til að sjá það og skilja, að einstaklingur eða lítið sveitarfélag eða lítið fyrirtæki með allar tekjur sínar í einum gjaldmiðli, innlendri mynt og með takmarkaða eða enga möguleika til að tryggja sig með einhverjum hætti fyrir gengissveiflum skuldsetji sig þannig. Það er ákaflega áhættusamt og fór illa.

Ég held að staðan sé óbreytt í dag. Alla vega mundi ég ekki taka erlent lán ef mér væri fjár vant og ég réð mönnum frá því, þeim sem mig spurðu á árunum þegar þetta var sem mest í tísku, að taka erlend lán t.d. til íbúðakaupa. Það fóru nú ekki allir frændur mínir eftir því. En ég þóttist hafa ráðið þeim heilt þegar krónan var hrunin um 44%, 50–60% gagnvart vinsælustu myntunum sem voru svissneskur franki og japanskt jen, og höfuðstóllinn hækkaði um 100% á einu bretti. Svo kom í ljós fyrir gráglettni örlaganna að þær ráðleggingar voru kannski ekki eins góðar og maður hélt þegar þau lán voru dæmd ólögmæt, en það er önnur saga og eiginlega kórónan á þessu delluverki öllu saman að svo skyldi þannig til takast. En öllum mátti vera ljóst að ætlun Alþingis hafði verið að banna þessi lán og bankarnir töldu sig hafa fundið hjáleið fram hjá því. Enginn sagði neitt, enginn sagði múkk á meðan allt lék í lyndi en svo létu menn auðvitað reyna á lögmætið þegar allt var komið í steik. Við ætlum væntanlega að reyna að verjast slíkum ófarnaði aftur.

Þá að frumvarpinu aðeins nánar. Ég kýs að leggja þann jákvæða skilning í markmið frumvarpsins að meiningin sé að láta undan hótunum ESA um aðgerðir gegn íslenska ríkinu, málaferlum og jafnvel líkum á að við gætum tapað því fyrir dómi, sem væri leiðangur sem er engin ástæða til að leggja í ef menn meta það svo að við höfum litlar líkur á að vinna það mál. Svo má velta fyrir sér hvort við viljum verja algerlega óbreytt ástand eða hvort við viljum koma einhverjum öðrum skikk á þetta fyrirkomulag, sem ég hallast að að sé skynsamlegt. Og kosturinn við að fara leið af þessu tagi er að þá náum við ekki bara utan um gengistryggð lán heldur líka erlend lán. Ég skil þetta þannig að eitt og hið sama muni gilda gagnvart þeim varúðartækjum sem reist verða fyrir því að t.d. aðilar með tekjur í innlendri mynt skuldsetji sig óhóflega í hvort heldur sem er erlendum lánum eða gengistryggðum lánum. Þá erum við vissulega að ná því fram í viðbót við að takast á við þann vanda sem tengist athugasemdum ESA.

Þá kemur að því hvernig tekst til í frumvarpinu. Ég geri engar athugasemdir við 2. gr. og ég held að það sé eðlilegt að leggja að jöfnu erlend lán og gengistryggð lán og flokka sem samkynja flokk í þeim skilningi sem gert er í 2. gr. Síðan kemur að lögum um breytingu á Seðlabanka Íslands. Þar er um það búið þannig að Seðlabankanum sé heimilt að fengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs að setja lánastofnunum reglur um erlend lán. Þetta er athyglisvert í sjálfu sér vegna þess að þarna er fjármálastöðugleikaráð allt í einu komið með vissum hætti yfir Seðlabankann. Það starfar á grundvelli laga og hefur það tiltekna hlutverk að passa upp á fjármálastöðugleikann og er gert ráð fyrir því í þeim lögum að það beini tilmælum til aðila um aðgerðir ef það metur svo þurfa. En væntanlega væri hægt að ganga einhvern veginn öðruvísi frá þessu þannig að Seðlabankinn gæti gert þetta sjálfur ef honum sýndist svo, þyrfti ekki endilega tilmæli fjármálastöðugleikaráðs til. Leiðin sem hér er valin er dálítið óbein. Ekki er valin sú leið að setja í lög að einhverju leyti, setja lagarammann um þær takmarkanir sem við viljum að gildi um þetta heldur á að setja í lög heimildir til handa Seðlabankanum á grundvelli tilmæla frá fjármálastöðugleikaráði annars vegar og síðan, í ákvæðum um neytendalán, að í greiðslumatinu sé heimilt að setja inn slíkar takmarkanir eða slík skilyrði. Þetta er náttúrlega krókótt leið að því marki að koma fram efnislegum takmörkunum á því hvernig aðilar með tekjur í innlendum krónum eða með litla fjárhagslega burði megi taka áhættu eða skuldsetja sig í erlendri mynt. Ég staldra aðeins við þennan útbúnað á málinu.

Nú má segja að þetta séu þau lög sem eiga við, neytendalánalögin annars vegar og lög um Seðlabankann hins vegar, en þarf að fara svona krókótta leið? Er ekki að einhverju leyti hugsanlegt a.m.k. að Alþingi sjálft setji skorðurnar við þessu í lögum? Er þetta betra gagnvart ESA? Þjónar það einhverjum tilgangi? Er eitthvað annað á bak við það að menn velja þessa leið en að þeir telji þetta praktískasta fyrirkomulagið? Ég teldi ástæðu til að hæstv. fjármálaráðherra færi aðeins betur yfir það. Af hverju er málið svona upp byggt? Af hverju er farin tiltölulega óbein leið að því að ná markmiðinu um að koma hinum takmarkandi reglum á? Það er gert annars vegar í gegnum það að heimila Seðlabankanum á grundvelli tillagna fjármálastöðugleikaráðs að koma við reglunum og síðan getur ráðherra, á grundvelli umsagnar Seðlabankans, sett skilyrði, þá væntanlega í reglugerð, inn í greiðslumatið um að þetta og hitt þurfi að vera til staðar ef menn ætla að taka lán í erlendri mynt eða gengistryggt lán. Mér finnst þetta umhugsunarefni og væri þess virði að skoða hvort menn eru sannfærður um að auðveldasta leiðin í mark sé að fara í þessu svigi. Það er umhugsunarefni.

Ég ætla ekki að orðlengja mikið um þetta af því að ég hef væntanlega aðstöðu til að fylgja málinu eftir í nefnd nema það eigi að fara til atvinnuveganefndar sem er dálítið í tísku núna, [Hlátur í þingsal.] ég veit það ekki. Ég lét mér detta í hug að málið færi til efnahags- og viðskiptanefndar og þá hef ég aðstöðu til að skoða það. En ég hafði satt best að segja undirbúið mig undir og reiknað með, því það er ekki nýtt fyrir mér að skoða þetta mál, að við mundum að einhverju leyti ganga frá þessu í lögum með beinum ákvæðum. Ég spyr t.d.: Er eitthvað að því að A-hluta sveitarsjóða sé einfaldlega bannað að taka lán í erlendri mynt eða gengistryggð lán? Vill einhver endurtaka það þegar sum af stóru sveitarfélögunum fóru að taka erlend lán og meira að segja kom til greiðslufalls hjá einu af stóru sveitarfélögunum í landinu á erlendu láni? Það er auðvitað ekkert gott að opinber aðili lendi í hálfgerðu greiðslufalli með gjalddaga af lánum í útlöndum, við viljum væntanlega forðast það, og hefði verið hægt að koma í veg fyrir held ég ef menn hefðu borið sig eftir aðstoð í þeim efnum.

Svipað má segja um launamenn eða einstaklinga. Það er augljóst að þetta snýr talsvert öðruvísi að lögaðilum. Þeir eru alla vega og sumir þeirra eru vissulega með allar sínar tekjur í erlendri mynt, geta verið mjög háðir veltu hér í hagkerfinu, litlir þjónustuaðilar o.s.frv. Vissulega eru til einstaklingar með beinar tekjur í erlendri mynt og þeir geta verið ágætlega varðir, þeir sem vinna að hluta erlendis eða eru með samninga um að fá laun greidd í erlendum myntum, það þekkist. Það má segja að vissu marki að sjómenn séu varðir fyrir gengisáhættu í ljósi þeirrar staðreyndar að hlutaskiptakerfið skilar þeim yfirleitt hlutdeild í ávinningi af falli gengis krónunnar o.s.frv. (Gripið fram í.) Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um þetta en að fara krókótta leið gegnum greiðslumat o.s.frv., verður það ekki dálítil flækja? Verða ekki aðstæður manna mjög mismunandi þegar kemur að því að takast á við sína lánastofnun um það? Menn segja: Ég hef víst fjárhagslega burði til að taka erlent lán. Ég er með hluta af mínum tekjum í erlendri mynt eða ég á eitthvað af eignum í erlendri mynt eða ég er á sjó og ég er nokkuð vel settur þótt krónan falli, eða eitthvað því um líkt. Þannig mætti lengi ræða um þetta, herra forseti.

Aðalatriði málsins er, svo ég endurtaki það: Að því marki sem okkur er nauðugur einn kostur að breyta frá gildandi skipulagi út af athugasemdum ESA er ég talsmaður þess að við gerum aðeins að lágmarki það sem þarf til að sleppa með það og að við stígum mjög varlega til jarðar áður en við opnum fyrir þann möguleika á nýjan leik að menn geti tekið óvarða áhættu í þessum efnum, vegna þeirra sem í hlut eiga þó að menn eigi auðvitað að hafa vit fyrir sér sjálfir og bera ábyrgð á sér sjálfir. Það má ekki tala endalaust um þessi mál á Íslandi eins og menn beri enga ábyrgð á þeim lánum sem þeir taka og skuldum sem þeir eru með. Það er eiginlega komið nóg af því. Það þarf alltaf að hafa í huga að menn verða að lokum að bera ábyrgð á því sem þeir gera í þessum efnum en það er rétt og skylt að upplýsa menn og hafa leikreglurnar skýrar og að bestu manna yfirsýn að girða fyrir áhættu og stórfellt tjón sem við þekkjum núna af biturri reynslu að getur orðið ef við stöndum óskynsamlega að þessum málum. Ég mundi vilja hin varfærnu skref. Það væri allt í lagi í sjálfu sér að pexa eitthvað við ESA í framhaldinu um það hvort okkar fyrstu viðbrögð að þessu leyti hefðu verið fullnægjandi og hafa þá frekar vaðið fyrir neðan sig í því að hafa farið rólega af stað.

Það er rétt sem kom fram í orðaskiptum áðan að þessi umbúnaður málsins gerir það mjög óskýrt fyrir Alþingi hver hin efnislega niðurstaða verður, því það á bara að koma síðar (Forseti hringir.) á grundvelli þeirra heimilda sem ráðherra og Seðlabanka fá og þeim er falið að setja reglur eftir á.