144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er síður en svo á móti því að menn ráðgist vel um þetta og það er alveg hárrétt sem fjármálaráðherra bendir á að þeir aðilar sem hér leggja helst hönd á plóg eiga allir aðild að fjármálastöðugleikaráði og miklir spekingar sitja í kerfisáhættunefnd og það er hin glæstasta sveit sem mun þar af leiðandi fjalla um það áður en Seðlabankinn fær tilmælin frá fjármálastöðugleikaráði um að setja lánastofnunum reglurnar. Sama má segja um greiðslumatið upp að vissu marki, en staðreynd málsins er þó að hér er sú leið valin að binda þetta í raun og veru að engu leyti í lög. Hér eru auðvitað ágætar lögskýringar, það er tíundað í greinargerð og að hluta til í frumvarpinu hvað það sé sem undirbyggi takmarkanirnar. En að öðru leyti er það viðfangsefni þessara aðila að setja þær takmarkanir eftir á.

Þess vegna spyr ég, það er þá næsta spurning, gott og vel: Hefur þetta verið undirbúið? Getum við séð drögin að þeim varúðarreglum sem hér eiga að fylgja í kjölfarið á grundvelli laganna? Væri ekki gott ef pakkinn væri klár? Þetta er ógagnsætt eins og það er í dag gagnvart Alþingi, það verður að viðurkennast og er alltaf ljóður á máli. Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um það, ef ekki nú í andsvörum þá í þingnefnd: Hversu langt eru menn komnir með undirbúninginn? Seðlabankinn hefur talað um þessar varúðarreglur af ýmsu tagi alveg frá því fljótlega eftir hrun þegar menn fóru að velta fyrir sér hvernig lífið gæti orðið eftir hrun og afnám gjaldeyrishaftanna þannig að eitthvað hlýtur að vera til í sarpnum um þetta. Getum við séð útlínur af þeim varúðarreglum sem koma þarna til sögunnar?