144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég fagna þessu, ég tel að það verði til bóta að við fáum að sjá á öll spilin og fáum, þótt það sé í ófullbúnu dragaformi, að sjá þær reglur sem menn hafa hugsað sér í þessum efnum og þá vinnu sem þegar hefur verið unnin eða þar sem málið er statt í dag. Ég tel að Alþingi þurfi að leggja á þetta sjálfstætt mat og ég er ekki sannfærður enn þá um aðferðafræðina. Ég áskil mér að minnsta kosti rétt til að halda því sjónarmiði til haga að við gætum farið aðra leið, við gætum að uppistöðu til klárað þetta í lögum, sett þessi efnislegu skilyrði og við gætum farið blandaða leið eins og er oft vinsælt og skynsamlegt að gera. Við gætum haft einhverjar hreinar línur, t.d. eins og þá sem ég nefndi að ákveða bara að A-hlutar sveitarfélaga, það gegnir öðru máli með dótturfélög og B-hlutann o.s.frv., skuli ekki skuldsetja sig í erlendri mynt.