144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki oft sem ég hef komið örlítið skelkaður í þennan ræðustól á síðustu áratugum og það er með hálfum huga að ég leyfi mér að gera ágreining við menn eins og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og Helga Hjörvar um hvort farin sé fjallabaksleið eða rétt leið í frumvarpinu með því að gera ráð fyrir þessum reglum. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé betri leið. Ástæðan er sú að það gerir kerfið miklu sveigjanlegra, það verður fljótlegra að geta brugðist við í stað þess að þurfa að fara með þetta í gegnum þrjár umræður hverju sinni hér á Alþingi. Ég held að það sé hægt að festa ýmislegt í lög en ekki mikið meira en það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér um A-hluta sveitarfélaganna. En það er ekki af því sem ég kem hérna upp.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt að setja þessi lög og ég tók eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Ef þarf. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þess nauðsynlega þurfa, út af þessu frá ESA, hvort hann hafi stúderað það, hann er manna vísastur um það.

Hitt er svo hvernig hæstv. fjármálaráðherra setur þetta mál fram í sinni ræðu. Þetta er frumvarp til laga um að leyfa en banna. Hæstv. ráðherra bókstaflega sagði að þetta ætti að leiða til þess að venjulegir borgarar sneiddu hjá því að taka lán af þessum toga. Það væri hins vegar allt í lagi fyrir þá sem afla tekna í erlendum gjaldeyri að fá að taka slík lán. Ég get út af fyrir sig verið því sjónarmiði sammála.

En hæstv. ráðherra sagði líka annað. Hann sagði: Hins vegar eru svo þeir sem eiga mikinn stabba eigna sem þeir geta breytt í erlendan gjaldmiðil. Við eigum að láta þá njóta vafans.

Ég spyr hv. þingmann hvort þetta brjóti ekki í bága við okkar sýn sem jafnaðarmanna. Er ekki verið að undirstrika þarna tvenns konar hópa í samfélaginu? Annars vegar eru það eignamenn sem eiga að fá að njóta vafans og hins vegar eru það ræflarnir við.