144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og var nú tilefni orðaskipta hér áðan er því miður alls ekki hægt að útiloka að þetta verði eitt af mörgu sem getur búið til ákveðinn efnahagslegan aðstöðumun. Það er alveg rétt. Auðvitað er hann svo sem fyrir hendi í svo mörgu öðru tilliti. Hvort þetta eitt og sér veltir þar þungu hlassi, það skal ég ekki segja, en það er alveg hárrétt, það er alveg mögulegt að það verði tvær þjóðir í landinu að þessu leyti til, ef það er til dæmis þannig að það teljist nægjanlegt að eiga tiltekið mikla skuldlausa eign þá teljistu hafa efnahagslegan stuðpúða og megir gera það sem þú vilt, taka þá áhættu sem þú vilt í þessum efnum. Ef aftur gengju í garð þeir tímar að í boði væru erlend lán eða gengistryggð lán á mjög lágum vöxtum þá gætu ýmsir nýtt sér það. Ef vaxtastigið á markaði hér að öðru leyti er síðan annað og miklu hærra þá vitum við auðvitað að það geta nánast verið hjáleiðir til þess að hirða vaxtamun.

Auðvitað var það það sem var að gerast í stórum stíl, t.d. þegar bólan var á fasteignamarkaðnum og hlutabréfamarkaðnum, að menn gátu tekið erlend lán á skítlágum vöxtum. Þá tóku menn þá peninga að láni og settu þá í ávöxtun og þénuðu heilmikinn mun árum saman, spiluðu í því lottói, lögðu fram eina milljón og fengu aðra milljón út á tryggingu í þeirri milljón og tóku svo tvær milljónir í viðbót og fjórfölduðu, gíruðu sig fjórfalt, og settu það svo í pott til ávöxtunar. Allt svona þarf því að hugsa út frá því hverjar afleiðingarnar geta orðið að þessu leyti.

Varðandi það hvort við þurfum að gera þetta út af athugasemdum ESA þá treysti ég mér ekki til að svara því alveg hér. Ég hef ekki skoðað þetta nýlega. Ég fékk í mínar hendur fyrstu athugasemdirnar frá ESA eða alla vega vissi af þeim, þær voru í farvatninu meðan ég fór með þessi mál á árinu 2012/2013. Þá sá ég í hvað stefndi með þetta, en ég hef ekki fylgst þannig með málinu að (Forseti hringir.) ég hafi til dæmis lesið núna síðustu tilskrif ESA út af þessu.