144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og sérstaklega er mikilvægt að fá sjónarmið hans sem formanns nefndarinnar hér við 1. umr. Ég skil hv. þingmann þannig að honum þyki í raun túlkunin á dómnum í þeim tillögum sem hér liggja fyrir vera miklu víðtækari en efni standa til.

Skil ég hv. þingmann rétt, að hann teldi jafnvel ástæðu til þess fyrir þingið að lögfesta aðeins í raun — ja, ekki málefnalegt bann heldur málefnalega heimild eins þröngt og nokkur kostur er innan þessa álits ESA, t.d. þannig að einstaklingum væri einvörðungu heimilt að taka slík lán ef þeir hafa tekjur í erlendri mynt og til þess tíma sem þeir hafa tryggar tekjur í þeirri mynt, en ganga ekki lengra gagnvart einstaklingum í ljósi þess að tugir þúsunda hafa skaðbrennt sig á svona lántökum?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Ef það er álit hans að það bann sem leitt var í lög 2001 og Hæstiréttur hefur fylgt eftir í dómum sínum, hafi ekki verið málefnalegt? Ef það er niðurstaðan, hefur þingmaðurinn þá áhyggjur af því að við slíka túlkun kunni að skapast bótaréttur af hálfu þeirra sem þurft hafa að sæta því að kröfur þeirra, byggðar á gengistryggðum lánum, væru færðar verulega niður vegna dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán sem grundvölluð voru á lögunum sem hér voru sett árið 2001?