144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Ég vil þá spyrja hann um sveitarfélögin. Mér fannst það nokkuð laust í reipunum hjá hæstv. fjármálaráðherra að vera að mæla fyrir frumvarpi til laga um þetta mikilvæga mál og vísa til þess að verið væri að vinna að einhverjum reglum í innanríkisráðuneytinu tengt til að mynda lántökum sveitarfélaga. Ég hefði haldið að slíkir þættir þyrftu að liggja fyrir fullmótaðir áður en málið væri lagt fram í þinginu, hvað þá að mælt væri fyrir því. Ég spyr því hv. þm. Frosta Sigurjónsson hvort hann telji ekki koma til greina að nefndin taki einfaldlega á því fortakslaust í lagatextanum sjálfum að sveitarfélögum sé einfaldlega óheimilt að taka lán af þessu tagi þar sem tekjur þeirra séu í innlendum gjaldmiðli.

Síðan er óhjákvæmilegt að spyrja þennan oddvita Framsóknarflokksins hér í sjálfri höfuðborginni hvernig standi á þeirri forgangsröðun stjórnarflokkanna að vera komnir öðru sinni með frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu, en ekki frekar en í hið fyrra sinni snýr þetta frumvarp neitt að verðtryggingunni sem Framsóknarflokkurinn lofaði að afnema. Hér er ekki einu sinni verið að banna lengri verðtryggð lán eins og þó var heitið í málalista ríkisstjórnarinnar fyrir þennan vetur, en frestur til að leggja fram mál rennur út að nokkrum vikum liðnum. Hvernig stendur á því að það að heimila gengistryggð lán er hér í sérstökum forgangi en ekkert bólar á þeim frumvörpum sem Framsóknarflokkurinn hefur lofað um afnám verðtryggingarinnar? Og af hverju er verið að opna lögin um vexti og verðtryggingu með þessu frumvarpi án þess að minnsta kosti að taka á Íslandslánunum? Eða ætlar Framsóknarflokkurinn ekkert að fylgja eftir móður allra kosningaloforða, afnámi verðtryggingarinnar?