144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi seinni spurninguna er flýtirinn á þessu máli náttúrlega skýrður með því, eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi komið að, að það er ESA sem ýtir eftir því að þetta verði gert, en ESA er ekki með neinn eftirrekstur varðandi verðtrygginguna. Hún er í farvegi í þeirri vinnu sem er í ráðuneytinu. En hérna er forgangsmál til að spara kostnað af málaferlum sem annars mundu hefjast.

Varðandi sveitarfélögin gæti alveg hugsast að einhver sveitarfélög væru með tekjur í erlendum myntum eða ættu einhver fjárfestingartækifæri sem skapaði þeim erlenda tekjustrauma, ekki er hægt að útiloka það. Ég held að almennar reglur, ef þær eru vel smíðaðar, ættu að geta gilt um sveitarfélög, fyrirtæki og almenning. Sveitarfélag sem hefði tekjur til langs tíma í erlendri mynt, hvers vegna ætti það ekki að geta tekið lán í erlendri mynt ef það væri hagfellt? Ég er ekki alveg tilbúinn að gera upp hug minn í því máli, en það er eitthvað sem við munum að sjálfsögðu skoða í nefndinni.