144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir og sýn hans á það.

Það sem mig langar að gera í mínu andsvari er að halda aðeins áfram með spurningu sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom með áðan um verðtrygginguna. Þótt hv. þingmaður hafi gefið það svar að ástæðan fyrir því að þetta mál, ný gengistrygging, sé tekið fram yfir verðtryggingu í röð atburða eða áhersluröð hjá ríkisstjórninni sé vegna málareksturs ESA, er það engu að síður þannig að Framsóknarflokkurinn sagði beinlínis fyrir síðustu kosningar og kannski ekki síst þeir sem núna sitja á ráðherrastóli, án þess að ég ætli að fara að lesa hér fyrir hv. þingmann hvað aðrir sögðu, að þetta væri einfalt verk sem hægt væri að gera á skömmum tíma ef viljinn væri fyrir hendi. Til að fylgja því eftir létu menn gera skýrslu í upphafi kjörtímabilsins og í henni kom fram að gera ætti ákveðnar breytingar í upphafi árs 2015, þar á meðal þá breytingu að banna svokölluð 40 ára verðtryggðu lán. Núna er upphaf árs 2015. Við erum með löggjöfina opna.

Í svari við fyrirspurn minni á liðnu hausti sagði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að verkið væri í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hann er þingmaður Framsóknarflokksins sem fór mjög skýrt fram með þetta mál hvort hann telji, í ljósi þess að menn eru ekki að uppfylla í raun og veru áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám verðtryggingar, að fjármálaráðuneytið sé að draga lappirnar og hvort nefndin muni taka til skoðunar að stíga þau fyrstu skref sem lögð eru til í skýrslunni.