144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:45]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég verð að játa mig sekan um að hafa talað fyrir afnámi verðtryggingar í kosningabaráttunni, að ég vildi afnám verðtryggingar og ég teldi að það væri vel gerlegt, en ég var líka sammála því að fara ætti fram einhvers konar forathugun á áhrifum þess og það var gert. Niðurstaðan var sú, eins og hv. þingmaður, nefnir að banna bæri 40 ára lánin og skoða síðan árið 2016 frekar áhrifin af þessu og næstu skref. Ég held að það ferli sé í gangi. Ef ég veit rétt er á málefnaskránni að slíkt frumvarpi komi fram. Vissulega er verið að opna lögin með þessu frumvarpi og vissulega væri tækifæri til þess að framkvæma bæði atriðin í einu en þau eru mjög ólík og kannski ekki rétt af þinginu að ræða þau samtímis í sama frumvarpinu. Ég veit ekki hvað tíðkast í því, reynsluleysi mitt sem þingmaður veldur því. En ég hef ekki ástæðu til að ætla að málið muni ekki koma fram. Ef ráðherra vill hafa þann háttinn á að fleyta því með þessu frumvarpi þá hugsa ég að það sé engin fyrirstaða í nefndinni af minni hálfu að veita honum liðsinni í því.