144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:50]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið fram nokkuð merkilegt frumvarp, það verður ekki annað sagt. Frumvarpið er ákaflega merkilegt og varðar málefni sem hefur verið linnulaust í umræðunni frá hruninu svokallaða. Frumvarpið lýtur að tvennu. Þetta er ekki yfirgripsmikið frumvarp, fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér það. Það er einungis átta stuttar greinar og lýtur í raun efnislega að tvennu, annars vegar er verið að þrengja reglur um lántökur í erlendum myntum, erlend lán. Það er annað atriðið.

Hitt atriðið er ákaflega merkilegt, en hér er skýrt kveðið á um að lán í íslenskum krónum sem eru gengistryggð, sem eru verðtryggð með tengingu við erlendar myntir, séu heimil. Auðvitað er merkilegt að það sé gert vegna þess að þetta eru hin svokölluðu gengistryggðu lán sem Hæstiréttur kvað upp úr um 16. júní 2010 í tveimur dómum að væru óheimil, hefðu verið óheimil þrátt fyrir langa viðskiptavenju. Það var reyndar ekki fjallað um þá ágætu lagaheimild sem viðskiptavenja er í þessum málum Hæstaréttar, en það lá fyrir að löng viðskiptavenja var fyrir lánveitingum í íslenskum krónum sem voru í erlendum myntum. Hæstiréttur komst að því, eins og alþjóð þekkir, að með vísan til VI. kafla vaxtalaganna, sem hér er lagt til að verði breytt, með vísan til þágildandi ákvæða, sem enn eru í gildi, hafi í raun verið óheimilt að lána í íslenskum krónum og gengistryggja slík lán. Nú höfum við nokkur ár að baki og hundruð dóma Hæstaréttar, held ég að ég geti fullyrt, a.m.k. yfir 100, sem hafa fjallað um margvísleg slík lán og enn sér ekki alveg fyrir endann á úrlausn allra þeirra mála. Svo kemur upp úr kafinu að EFTA kveður upp úr um að það hafi verið, úr því að Hæstiréttur líti svo á að gengistryggðu lánin hafi verið ólögmæt, ólögmætt að leyfa ekki gengistryggðu lánin.

Í því ljósi er þetta frumvarp fram komið, til þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Þetta er merkilegt að því leyti að verið er að taka ótvírætt af skarið um að lán sem Hæstiréttur hafði komist að að væru ólögmæt verði að vera lögmæt, verði lögmæt nái frumvarpið fram að ganga. Ég fagna því. Ég fagna því að tekið sé af skarið um það.

Ég vil nefna tvennt í því sambandi. Það er svolítið merkilegt að starfa í þessum þingsal þar sem mér hefur stundum virst hlutirnir vera á hvolfi. Hv. þingmenn sem ég hefði haldið að mundu lýsa eindreginni afstöðu sinni til tiltekins máls skipta oft um skoðun, hraðar en hægt er að henda reiður á. Það er ekki á vísan að róa fyrir þann sem ætlar að vera í þingsalnum í einhvers konar hugmyndabaráttu, að eiga orðastað við þingmenn sem kannski gera sig út fyrir að vera annarrar skoðunar en maður sjálfur en virðast svo í einstökum málum hafa allt aðra skoðun en meginsjónarmið þeirra hafa gefið til kynna.

Ég nefni þetta vegna þess að ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar varðandi þetta frumvarp og hann benti á atriði sem vert er að halda til haga. Það er sjálfsagt að Ísland haldi til haga rétti sínum gagnvart Evrópusambandinu í EES-samstarfi okkar og leitist eftir því að sækjast eftir undanþágum ef við teljum að þess þurfi. Sjálf tel ég að Ísland geri það ekki í nógu ríkum mæli og að gera þurfi verulega bragarbót á því. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, taldi að þetta mál væri þannig að við hefðum átt að gera að því einhvern reka að fá að banna gengistryggð lán. Ég er því ekki sammála en mér finnst vænt um að hv. þingmaður telji að EFTA hafi einhvern veginn ranga skoðun á þessu máli.

Ég tel að þetta frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra, mínum ágæta formanni, sé hlaðið fullmikilli forsjárhyggju. Hér er kveðið á um að óheimilt verði að veita lántaka lán nema greiðslumat leiði í ljós að hann hafi augljóslega fjárhagslega burði til þess að standast verulegar breytingar. Ég legg áherslu á tvö hugtök sem eru matskennd. Þetta er ákvæði sem við sem höfum starfað í lögmennsku þekkjum að er alveg sérstaklega til þess fallið að verða til vandræða til framtíðar litið, þ.e. að menn geti hengt sig í slíkt orðalag þegar illa fer og lántaki sem var kannski æstur í að taka gengistryggt lán haldi því síðar fram að augljóst hafi verið að hann hafði enga fjárhagslega burði til þess að standa við það og fjármálastofnuninni hefði mátt vera það ljóst og þannig reynt að færa ábyrgðina af slæmri lántöku sinni yfir á fjármálafyrirtækið.

Í frumvarpinu er reyndar reynt, svo því sé haldið til haga, að bregðast við því matskennda atriði með því að leggja þar til að ráðherra geti að fenginni umsögn bundið greiðslumat vegna erlendra lána sérstökum skilyrðum. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að ráðherra geti sett einhverjar reglur þannig að hin matskenndu viðmið verði einhvern veginn fest í texta.

Ég tel, og hæstv. fjármálaráðherra nefndi það sérstaklega, að auðvitað væri fullt tilefni fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða þetta sérstaklega, hvort jafnvel ætti að festa það enn frekar þannig að í stað þess að þetta sé heimildarákvæði sé kveðið á um það í frumvarpinu að ráðherra þurfi að setja slíkar reglur. Ég vil hins vegar gjalda varhuga við slíku. Ég tel að það standi fjármálastofnunum sjálfum næst að setja reglur um þetta, að taka ábyrgð á lánveitingum sínum. Að sjálfsögðu á að gera kröfu til þess að skilmálar og matskennd atriði sem varða greiðslumat einstaklinga liggi ljós fyrir í upphafi og séu kunngjörð áður en einstaklingar eða fyrirtæki sækjast eftir lánum. Það er gert með lögum um neytendalán. Ég tel að miklu heppilegra sé að reglur um þetta séu á forræði fjármálastofnana, því að það má ekki gleyma því að ábyrgðin á erlendum lántökum eða lánveitingum og veitingu gengistryggðra lána á að vera hjá fjármálastofnunum. Það er ekki hægt að gera eins og mönnum hefur hætt til fyrir hrunið, ég tala nú ekki um eftir hrun, að fría fjármálastofnanirnar ábyrgð að þessu leyti með því að gefa til kynna, eins og menn hafa oft gert, að menn ætli að bjarga fjármálastofnunum trekk í trekk þegar þær lenda í vanda út af lélegum lánveitingum.

Þetta vildi ég nefna og ég vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki sérstaklega til skoðunar hvort ekki sé eðlilegt að samningsfrelsið sé í meginatriðum virt og það séu ekki bara gerðar reglur til þess að skilmálar lánveitinga liggi fyrir, en það sé ekki ráðherra eða Seðlabankinn sem hafi þar hönd í bagga.

Ég vil að lokum nefna eitt atriði, sem er minna atriði og kannski frekar fyrir kverúlant, og það er skilgreiningaratriði. Frumvarpið kveður á um skilgreiningu á erlendu láni. Lagt er til að það kallist erlent lán sem sé lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán. Svo segir að lán í erlendum gjaldmiðli sé lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum, gengistryggt lán er í íslenskum krónum þar sem höfuðstóll og greiðsla o.s.frv. er háð breytingum á gengi erlends gjaldmiðils. Með öðrum orðum er verið að leggja til að erlent lán sé samheiti yfir bæði lán í erlendum myntum og lán í íslenskum krónum. Ég tel það óheppilegt. Það er hvorki í samræmi við málvenju, augljóslega, né við lagamál sem hefur til dæmis verið notað í dómum Hæstaréttar og annarra sem fjalla um þau mál lögfræðilega. Ég vil því biðja hv. efnahags- og viðskiptanefnd að kíkja sérstaklega á þá skilgreiningu sem lögð er til í 2. gr. og huga að því hvort ekki megi hafa orðalagið þannig að betur falli að málvenju og hugtakanotkun í lögfræði.