144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kvartaði undan því að stundum væri erfitt að eiga orðastað við þingmenn í þessum sölum vegna þess að þeir væru ekki nægilega hugmyndafræðilega fastir í rásinni og reikuðu sumir. Ég beið eftir því hvort verið gæti að slíkt hið sama kæmi í ljós varðandi hv. þingmann. Hv. þingmaður er þekkt að því að hafa mjög sterkar og eindregnar skoðanir sem í vissum efnum skera sig frá skoðunum mínum og klárlega í sumum tilvikum hennar eigin flokkssystkina. Eins og jafnan um þessa góðu ætt bregst hún ekki vonum mínum. Það kom auðvitað fram sem ég beið eftir að sjá og heyra hvort hv. þingmaður mundi reka sína hnýfla í, og það er forsjárhyggjan í þessu frumvarpi.

Ég lít á sjálfan mig sem klassískan jafnaðarmann og fer ekki í nokkrar felur með það að ég tel sjálfsagt að hafa reglur um hvernig ber að haga umferð í fjármálalífinu og hef reyndar, til að segja nánari deili á mér, skilgreint mig miklu frekar sem franskan jafnaðarmann en blairista. Frakkar eru, eins og hv. þingmaður veit, nokkuð fastir og hún mundi sennilega segja afturhaldssamir um sýn sína á hvernig ríkið á að koma inn í efnahagslífið og gangvirkið.

Fyrir mér er frumvarpið veruleg forsjárhyggja. Ég geri ekki neinn ágreining um það. En hv. þingmaður er þekkt að því að tala um stjórnmál með þeim hætti að einstaklingurinn sé frjáls, viljinn sé frjáls, menn verði að taka afleiðingum gerða sinna, það gildi jafnt um einstaklinga og fyrirtæki. En hér er verið að taka af þeim forræðið. Og rétt, hv. þingmaður sem vill ekki vera reikul í rásinni finnur að því, finnst mér.

Þá kemur spurningin. Til þess að hún reiki ekki verður hún að sýna það með einhverjum hætti þegar kemur til úrslita í málinu. Þess vegna langar mig til að spyrja hana: Mun hún styðja þetta forsjárhyggjufrumvarp, svo ég noti hennar eigin orð?