144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur erum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson sammála um það atriði sem hann nefndi í lokin. Það er alveg rétt, að lögum „de jure“ eins og menn segja, er þetta leyft, en kannski „de facto“ hvað varðar einstaklinga, minni fyrirtæki og mögulega sveitarfélög þá kæmi þetta í veg fyrir gengistryggð lán. Eins og ég kom inn á í ræðu minni tel ég þessi matskenndu skilyrði sem frumvarpið kveður á um mjög óheppileg. Ég get bætt því við að einstaklingur sem er í dag með tekjur í erlendum myntum og tekur lán kannski til fimm ára, gengistryggt lán, hann gæti verið búinn að missa þær tekjur eftir nokkra mánuði. Það má eins vera öfugt. Maður getur séð fyrir sér að hafa tekjur eftir eitt eða tvö ár í erlendum myntum. Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Ég tel einmitt að þetta þurfi að skoða og forsjárhyggjan að þessu leyti leiðir menn alltaf í ógöngur. Þegar menn ætla að reyna að skipuleggja svona með reglum frá A til Ö, sjá fyrir allar aðstæður sem upp kunna að koma, það endar bara með því að menn lenda í ógöngum með það, það er ekki heppilegt. Frelsið er alltaf lausnarorðið. Það er þægilegast að halla sér að því.