144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frelsið er lausnarorðið, sagði hv. þingmaður, og það má til sanns vegar færa. Spurningin er frelsi hverra og til hvers?

Ég vildi nota tækifærið af því hér ber vel í veiði, þar sem við höfum reyndan lögfræðing í þingmannahópnum um stund, og spyrja hv. þingmann um þær áhyggjur sem fram komu fyrr í umræðunni um það að ef menn fallast á að bannið við gengistryggðum lánum hafi verið ómálefnalegt, að það haldi ekki gagnvart þeim lögum sem gilda eiga á Íslandi, hvort menn séu þar með að skapa sér hættu á einhvers konar bótakröfum, vegna dóma Hæstaréttar um að þetta væri málefnalegt bann, að þeir gætu sótt kröfur á ríkið vegna þess.

Í öðru lagi vildi ég spyrja þingmanninn um það, þegar hún segir að það standi fjármálastofnununum næst að meta þessa áhættu og draga þessar línur og þær þurfi að axla ábyrgðina af því: Sýnir ekki reynsla okkar á undanförnum árum, af bankahruninu meðal annars, að það eru ekki, þegar til stykkisins kemur, fjármálafyrirtækin sem axla ábyrgðina, ef illa fer er það samfélagið sem þarf að axla þá ábyrgð? Og hefur það ekki sýnt sig að það skipulag sem hér var — og eins til dæmis í Ungverjalandi, um að veita fólki óhæfilega áhættusöm lán eins og þessi í stórum stíl — var allt of áhættusamt, ekki bara fyrir fjármálafyrirtækin heldur þessi samfélög í heild sinni? Reyndist það ekki á endanum á ábyrgð samfélaganna (Forseti hringir.) sjálfra og því standi það samfélaginu næst að setja reglurnar?