144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina eða andsvarið. Hvað seinni spurningu hans líður, hvað samfélagslega ábyrgð lánveitinga varðar: Að sjálfsögðu er það þannig að ef menn ákveða að ríkisvaldið, skattgreiðendur, ætli að bjarga bönkum þegar illa fer þá skiptir miklu máli hvernig bankar haga sér og sér í lagi hverjum þeir lána og hvernig. Það er alveg augljóst.

Ég tel það hins vegar ekki vera hlutverk ríkisins, skattgreiðenda, að bjarga fjármálastofnunum þegar illa fer. Þær þurfa að bera ábyrgð á eigin starfsemi, eigin ákvörðunum, einkum og sér í lagi á lánveitingum. Það fengu þær ekki að gera við fall fjármálakerfisins hér á Íslandi. Þær fengu ekki að gera það í friði heldur var hlaupið til og bjargað og skattgreiðendur sátu uppi með verulegan kostnað — og ekki bara skattgreiðendur, það má ekki gleyma erlendu kröfuhöfunum sem menn vilja samt alltaf mála hér svörtum lit. Það er nú þannig. Við þurfum að komast upp úr þessari hugsun.

Hvað skaðabótakröfu varðar, þetta er áhugaverð spurning. Menn hafa auðvitað velt þessu fyrir sér frá því að þetta EFTA-álit kom fram. Auðvitað er það þannig að þegar lög hafa verið brotin og tjón hlýst af þá er skaðabótaábyrgð. Ég er hins vegar ekki á því að þegar EES-samningurinn var samþykktur á sínum tíma hafi menn verið að gangast undir mögulega skaðabótaábyrgð ríkisins gagnvart einstaklingum í þessu landi, það þarf því að skoða þessa spurningu með hliðsjón af meginreglum EES-réttarins.