144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar í þátíð, um að menn hafi þá tekið ábyrgð á rekstri bankanna. Það er nauðsynlegt að vekja athygli hv. þingmanns á því að sú ríkisstjórn sem hún styður hefur lýst yfir ríkisábyrgð á öllum innstæðum í öllum viðskiptabönkum sem starfa á Íslandi. Þeir starfa þess vegna fullkomlega á ábyrgð ríkissjóðs, á grundvelli þeirrar yfirlýsingar. Verður þá ekki fyrst að slíta þann naflastreng áður en þessum fjármálastofnunum er falið frjálsræði til að taka hverja þá áhættu sem þeim sýnist, þegar ríkisstjórnin heldur sig í reynd enn við það að hafa þá áhættu alla á ábyrgð ríkisins?

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann um lagasetninguna. Við þekkjum það frá fyrri tíð að þá tíðkaðist nokkuð að þingið veitti Seðlabankanum býsna ríkulegar reglusetningarheimildir. Í raun og veru hafði Seðlabankinn, ekki nánast heldur vil ég leyfa mér að segja bara fullkomlega, löggjafarvald um ýmis og einstök atriði og hefur sótt slíkar heimildir enn á síðari árum, meðal annars í lögunum um gjaldeyrishöft þar sem stórkostlegar ákvarðanir, sem lutu að refsingum og brotum, voru byggðar á reglum sem bankinn setti bara með almennum lagaheimildum frá þinginu. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji ekki eðlilegra, og meira í samræmi við nútímasjónarmið um lagasetningu, að þingið sjálft taki sem mest tvímæli af um það hvað er leyft og hvað er bannað í lögunum en að reglusetningarvald Seðlabankans sé takmarkaðra en frumvarpið gerir ráð fyrir.