144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get svarað því í fáum orðum. Ég tel að Alþingi hafi lagasetningarvaldið og það gangi ekki að framselja það í verulegum mæli stofnunum, hversu mikilvægar sem þær nú eru eða telja sig vera, ég tala nú ekki um svo mikilvæg mál sem gjaldeyrismál eru; ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi verið gert stuttu eftir hrun í allt of miklum mæli til Seðlabanka Íslands. Það var nú lagfært, ef ég man rétt, og það hefur verið gert smám saman.

Þetta svar á svo sem líka við fyrri hluta spurningar hv. þingmanns, þ.e. um ríkisábyrgð á bönkunum í dag eða innlánum bankanna. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann, sem hefur lagasetningarvaldið, fjárveitingavaldið, samþykkt ríkisábyrgð á innlánum bankanna?