144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður upplýsir mig um það nú að 40 ára lánin eru eiginlega partur af sharia, þá skil ég loksins andstöðu Framsóknarflokksins við þau merku lán. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra það út fyrir mér. En það var nú ekki ég sem færði þau inn í umræðuna. Ég nam þetta af vörum hv. þingmanns í bláupphafi ræðu hans og þess vegna þótti mér það forvitnilegt. En það gleður mig að hv. þingmaður segir afdráttarlaust að engin málefnaleg rök séu fyrir því að banna þau lán. Þá vænti ég þess að hv. þingmaður sem ég veit og hef reynt af því að vera mjög samkvæman sjálfum sér að hann muni, þegar það frumvarp kemur hingað til þings, væntanlega upplýsa það í umræðunni eins og núna að engar málefnalegar ástæður séu fyrir að samþykkja það og greiða atkvæði gegn því. Ég tel það. Þá eru menn samkvæmir sjálfum sér. Þá get ég hrópað húrra fyrir hv. þingmanni.

Að öðru leyti fannst mér ákveðinn samhljómur með alla vega minni sýn á frumvarpið og því sem hv. þingmaður hefur sagt í andsvörum sínum og ræðu sinni. Það sem hann sagði í ræðunni var eftirtektarvert. Hann sagði að frumvarpið mundi leiða til þess að það yrði tvenns konar mat á greiðslugetu, annað fyrir það sem hann kallaði örlítinn hóp og síðan þyngra mat fyrir menn eins og mig og marga hér og flesta í þessum sal. Það er kannski ástæða til þess að staldra við þegar blasir við að menn eru með þessum hætti að skilja þjóðina í sundur í örlítinn hóp og miklu stærri hóp.

Hv. þingmaður hefur fært mér heim sanninn um að hann er efasemdarmaður um þetta mál og hefur sagt að það sé of mikil forsjárhyggja í því. Það eru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa sagt það. (Forseti hringir.) Við sjáum svo hvernig þau greiða atkvæði. Ég er ekki að storka þeim að neinu leyti, en ég veit (Forseti hringir.) það a.m.k. af samstarfinu við báða þingmenn, herra forseti, (Forseti hringir.) að þau eru samkvæm sjálfu sér.