144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fjallar um gengistryggð lán sem erlend lán væru, en er það ekki hinn rétti skilningur að þau eru íslensk lán sem hafa verðtryggingu sem er mjög sveiflukennd og áhættusöm og eykur þess vegna líkur á því að greiðslufall verði hjá lántakanum? Ég get verið sammála því að auðvitað er gjaldmiðillinn hér ákveðið vandamál og alltaf verið að leita að Krísuvíkurleiðum til þess að geta haldið áfram að reka hann. En skildi ég hv. þingmann rétt að hann telji að kostnaður lántakenda í verðtryggðum íslenskum lánum sé orðinn jafn mikill eða meiri á undanförnum árum en kostnaður af hinu gríðarlega gengisfalli sem varð á erlendum lánum? Það sé jafnvel dýrari kostur að vera í verðtryggða íslenska kerfinu en hafa verið í erlendum lánum á tímum þegar gengi krónunnar hefur fallið jafn mikið og raun ber vitni?

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður getur náttúrlega ekki vikið sér undan því að ræða um verðtrygginguna því hann hóf sjálfur máls um hana. Við hljótum ekki bara að spyrja hv. þingmann um það frumvarp sem fyrirheit er gefið um sem bannar 40 ára lán, við hljótum líka að spyrja hv. þingmann um skriflegt svar forsætisráðherra við fyrirspurn um afnám verðtryggingar þar sem kemur fram að ríkisstjórnin hefji afnám verðtryggingar (Gripið fram í: Rétt.) á árinu 2016, hvort þingmanninum sé ekki kunnugt um það. Við hljótum líka að spyrja hvort það sé ekki samkomulag stjórnarflokkanna að banna þegar á þessu vorþingi 40 ára lánin en hefja þegar á árinu 2016 fullt afnám verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og þar með banna það, sem mér sýnist vera nokkuð í andstöðu við þau meginsjónarmið sem hv. þingmaður og raunar líka (Forseti hringir.) hv. þm. Sigríður Andersen hafa lýst í þessum umræðum.