144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:42]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau lán sem hér er um að ræða eru væntanlega innlend lán, vissulega, en þau eru lánuð með viðmiðun í erlenda gjaldmiðla. Þess vegna eru þau talin erlend lán, þau eru væntanlega veitt af erlendum lánastofnunum, en það er kannski rétt að tala um erlend lán. Við búum á svæði sem er kallað Evrópskt efnahagssvæði og lántökur yfir landamæri eru heimilaðar. Það getur vel verið að hægt sé að skilyrða þær lánveitingar annars staðar frá að íslenskum lögum.

En ég frábið mér að svara fyrir hæstv. forsætisráðherra. Það er ekki mitt hlutverk. Ég hef vissulega heyrt af afnámi verðtryggingar. Ég segi bara ósköp einfaldlega að vextir byggjast upp á nokkrum þáttum, raunvöxtum, álagi vegna verðbólgu, álagi vegna greiðslufalls o.s.frv. Einn þessara þátta er mældur með málefnalegum hætti eins og verðbólguálagið í verðtryggingu og að það eigi að banna það en það eigi að heimila ágiskun — hvaða rugl er þetta eiginlega? Ég skil ekki almennilega hvaða æði rennur á menn. Er ekki rétt að horfa til baka á þróunina?

Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi að lán sem tekin voru á versta tíma, annað verðtryggt, hitt gengistryggt, stæðu í svipaðri stöðu. Bara blaðið sem ég var að búa til áðan sýnir mér að svo er, alla vega hvað dollarann varðar og jafnvel evruna, svo er ekki með lán í svissneska frankanum. Þannig að þessar breytingar eru með ýmsum hætti. Vissulega verða lántakendur að vera við því búnir að taka á sig sveiflu, en ég held kannski áfram í seinna andsvari.

Ég hef lokið máli mínu að sinni.