144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er verulega athyglisvert ef það er svo hjá hv. þingmanni að dollaralán á síðustu sjö árum hafi reynst vera ódýrara í gegnum mesta gengisfall sem við höfum séð lengi en verðtryggð íslensk lán, þ.e. þau hafi reynst dýrari en jafnvel þessi óhagstæðu lán.

Ég geri ekki kröfu á hv. þingmann að svara fyrir forsætisráðherra, fjarri því, en ég spyr hv. þingmann um Sjálfstæðisflokkinn og þingflokk Sjálfstæðisflokksins vegna þess að hv. þingmaður er nú þrátt fyrir allt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég spyr einfaldlega: Er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt að banna 40 ára verðtryggð lán? Og hefur Sjálfstæðisflokkurinn samþykkt að hefja afnám verðtryggingar að fullu árið 2016? Hefur forsætisráðherra þetta til þess að byggja yfirlýsingar sínar á? Hv. þingmaður þarf ekki að svara fyrir forsætisráðherra. Hann þarf bara að svara til um það hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi skuldbundið sig til þessara tveggja verkefna.

Ég vildi síðan spyrja hv. þingmann að lokum hvort það sé ekki býsna sérstakt að kalla eftir frelsi í viðskiptum með erlend lán og gengistryggð lán í samfélagi þar sem eru gjaldeyrishöft. Verður ekki almennt að ætla að það sé nauðsynlegt skilyrði fyrir frjálsum gjaldeyris- og gengistryggðum lánaviðskiptum í einu landi að þar séu fyrir hendi frjálsir fjármagnsflutningar? Er ekki verið að fara að hlutunum í rangri röð í frumvarpinu, hv. þingmaður, að veita frelsi í lánaviðskiptum með gjaldmiðla sem ekkert frelsi er í meðferð á í landi sem býr við lög um gjaldeyrishöft?