144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég velti líka fyrir mér öðru atriði sem bar aðeins á góma í upphafi umræðunnar og þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu. Það er kannski frekar það sem lýtur að innihaldi frumvarpsins sem slíks. Í 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands er getið um meginmarkmið bankans sem er að stuðla að stöðugu verðlagi og að lýsa yfir tölulegum markmiðum um verðbólgu og stuðla að framgöngu stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Nú er það svo að þessu frumvarpi er ekki bara ætlað að koma til móts við tilteknar athugasemdir heldur er beinlínis gengið inn í markmiðsákvæði laga um Seðlabanka Íslands. Er þá Seðlabankanum skyndilega heimilt, að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði, að setja lánastofnunum reglur um erlend lán. Raunar er farið ágætlega yfir röksemdirnar fyrir því að fara þessa leið. En það hlýtur að teljast afar mikið umhugsunarefni að fela Seðlabankanum með þessum hætti svona mikið reglusetningarvald að hluta til gagnvart þeim fjármálastofnunum sem heyra undir fjármálastöðugleikann þegar stærri myndin er undir.

Ég vil biðja hv. þingmann að deila með mér vangaveltum sínum um það hvaða hættur gætu verið þarna á ferðinni, að því er varðar skörun verkefna og viðfangsefna Seðlabankans, þegar um er að ræða ákvörðun af því tagi sem í frumvarpinu liggur, þ.e. að ganga beint inn í markmiðsákvæði ekki minni laga en laga um Seðlabanka Íslands.

Það er alla jafna þannig, þegar menn fara af stað með breytingar á lögum af þeim burði sem hér er undir, að þeir fara kannski ekki beinlínis með snyrtingar inn í markmiðsákvæðið sjálft. Vangaveltur fyrrverandi fjármálaráðherra væru sannarlega áhugaverðar í því efni.