144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé þarna að draga upp atriði sem ég kom reyndar ekki inn á í ræðu minni en er eitthvað sem nefndin þarf að skoða og menn hafa aðeins komið inn á hér í dag. Það skiptir öllu máli í samfélagi eins og okkar að við séum með seðlabanka sem hefur skýrt hlutverk og nýtur fullkomins trausts í ákvörðunum sínum og því sem hann gerir. Þess vegna þarf að ganga mjög varlega um þegar menn ákveða að krukka í það umhverfi að öllu leyti.

Við erum með gríðarlega viðkvæman gjaldmiðil. Við erum með gríðarlega viðkvæmt efnahagslíf. Þess heldur skiptir það mjög miklu máli að við náum þessu markmiði. Þess vegna var ég líka, eins og hv. þingmaður, örlítið hugsi yfir þessu. Mér finnst skipta máli að nefndin að þessu sinni, þegar hún fjallar um þetta mál, horfi ekki bara á það hvað verið er að gera heldur líka á það hvernig við eigum að umgangast málefni Seðlabankans. Þetta segi ég líka vegna þess að verið er að tala um að gera á honum frekari breytingar. Ég hef áhyggjur af þessu stóra samhengi.

Virðulegi forseti. Bara rétt hér að lokum, af því ég hef hér hálfa mínútu, þá langar mig að segja, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að mér finnst þetta mál birta mjög vel þann aðstöðumun sem Íslendingar búa við. Það er einfaldlega þannig að við erum að verða mjög stéttskipt samfélag að þessu leyti. Við erum með fólk sem er í aðstöðu til að hagnast gríðarlega á aðstöðu sem hefur skapast, sem því hefur verið sköpuð. Hér sjáum við birtingarmynd þess í því að nú erum við komin með gerð lána sem er í raun bara fyrir þennan sama hóp, þ.e. þann hóp sem hæstar hefur tekjurnar og hefur mest umleikis. Áfram (Forseti hringir.) verður almenningur í landinu með hina verðtryggðu krónu sem Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að gera neitt í að (Forseti hringir.) afnema.