144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vildi spyrja áfram um það sem lýtur að Seðlabankanum. Telur þingmaðurinn það ekki orka tvímælis að fela fjármálastöðugleikaráði einhvers konar fyrirskipunarvald gagnvart Seðlabankanum eins og gert er í frumvarpinu, jafnvel þó Seðlabankinn eigi fulltrúa í því ráði, hvort ekki þurfi að minnsta kosti að íhuga það vel, áður en menn stíga slíkt skref, að fela stofnun utan bankans eitthvert vald gagnvart bankanum? Þarf ekki að tryggja sjálfstæði hans í einu og öllu?

Ég vildi kannski einkum spyrja hv. þingmann um það sem framsóknarmenn hafa átt mjög erfitt með að ræða hér í dag og alls ekki viljað, og jafnvel einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem snýr að verðtryggingunni. Þetta frumvarp lýtur að lögum um vexti og verðtryggingu. Það var boðað að hér kæmi inn á vorþinginu bann við 40 ára lánum og af hálfu forsætisráðherra hefur afnám verðtryggingar verið boðað þó að ég hafi skilið yfirlýsingar fjármálaráðherra á þann veg að ekki standi til, af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að afnema verðtryggingu.

Ég spyr hv. þingmann: Blasir það ekki við, núna þegar kjörtímabilið er hálfnað, að Framsóknarflokkurinn hefur ekki fengið samþykki samstarfsflokksins fyrir afnámi verðtryggingar og er bara í einhverju leikriti gagnvart kjósendum sínum? Verður ekki að lesa það sem skilaboð frá fjármálaráðherranum til samstarfsflokksins að hann leggi fram, undir lok vorþingsins, frumvarp til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu án þess að þar inni sé ákvæði um bann við 40 ára lánunum sem þó var á málaskrá hans (Forseti hringir.) og hluti af samkomulagi stjórnarflokkanna?