144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 1. gr. í lögum um Seðlabanka segir beinlínis að eitt af aðalmarkmiðunum sé að Seðlabanki sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Ef við setjum lög þar sem við felum þriðja aðila fyrir utan það samband að hafa einhvers konar boðvald yfir Seðlabankanum þá erum við komin út á mjög hálan ís. Þá erum við farin að grafa undan, eins og ég sagði í andsvari hér á undan við hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, hornsteinum í efnahagsstefnu okkar sem er sjálfstæður og sterkur seðlabanki og seðlabanki sem nýtur óskoraðs trausts og umboðs okkar til að fara með þau málefni sem honum er falið. Þess vegna þurfum við að fara mjög varlega í svona breytingar. Ég vona að nefndin skoði þetta mjög vandlega og ræði af alvöru hvernig við í þessum sal eigum að umgangast Seðlabankann og breytingar á hlutverkum hans.

Aðeins varðandi verðtrygginguna og loforð Framsóknarflokksins, og hvort það sé þannig að samstarfsflokkurinn haldi aftur af mönnum í því að efna það loforð, þá skiptist það svolítið á hjá mér hvort ég telji að það sé raunin, hvort menn séu raunverulega að draga lappirnar samstarfsflokksmegin, eða hvort framsóknarmenn séu búnir að átta sig á því að þetta er ekki áhlaupaverk, að þeir séu bara ekki búnir að segja okkur að þeir ráði ekki við þetta.

Mér fannst fyrsta vísbendingin um það koma fram í niðurstöðu þessa starfshóps um verðtrygginguna þegar hann skilaði eingöngu einhverjum tillögum um að banna einstaka lánaflokka. Það er ekki afnám verðtryggingar. Þeir ráða bara ekki við verkefnið og þeir geta ekki skilað því.