144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði það sama og hv. þingmaður og fannst það líka áhugavert. Ég var svo lánsöm að fá líka að sjá mynd af þessu, þ.e. mynd sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason var að vísa til, og hún sýnir þetta.

Það er auðvitað mjög merkilegt að það er á stuttu tímabili sem óhagkvæmara er að vera með gengistryggt lán, þ.e. í öðrum myntum en dollara. Yfir það heila, yfir langt tímabil, yfir 10 ára tímabil, virðist það hafa verið hagstæðara að vera með gengistryggt lán. Þetta er auðvitað eitthvað sem er áhugavert fyrir okkur að skoða. Ég verð að segja alveg eins og er að það er út af þessu sem ég hef kallað eftir því að við ræðum hina stóru mynd. Ég sakna þess að við séum ekki að ræða akkúrat þetta, að við séum ekki að ræða það hvaða lífskjör við ætlum að bjóða Íslendingum í framtíðinni.

Ætlum við að halda áfram að bjóða Íslendingum upp á þá lánamöguleika sem þeim hefur verið boðið upp á hingað til? Eða ætlum við kannski í þetta skipti að reyna að finna upp á einhverju nýju? Við erum að bjóða upp á verðtryggð lán, við erum að bjóða upp á gengistryggð lán sem eiga að vera fyrir einhvern fámennan hóp. Það er verið að bjóða upp á óverðtryggð íslensk lán, en ekkert af þessu er neitt sérstaklega góður kostur fyrir okkur ef við horfum á samanburð við nágrannaríki okkar. Mér er það mjög til efs að ungir Íslendingar ætli að láta bjóða sér það sama og okkur hefur verið boðið upp á hingað til. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ræða um þessa stóru mynd og ég hef kallað eftir því við hæstv. fjármálaráðherra að hann geri það, ræði sína framtíðarsýn varðandi þessa stöðu. Það þýðir ekki bara alltaf að búa til nýja og nýja plástra.