144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða. Þó að þingsalur sé ekki algerlega fullskipaður þegar komið er fram að þessum punkti umræðunnar er eigi að síður ljóst af þátttöku manna í dag að þetta er mál sem snertir marga. Menn hafa hér komið fram með mjög merkilegar yfirlýsingar, ekki síst hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnvart þeim hugmyndum sem félagar þeirra í Framsóknarflokknum hafa um ýmislegt sem varðar þau mál sem við ræðum hérna, þ.e. peningamálin. Ég hef ekki flutt ræðu um þetta mál í dag en verð að segja að ég hef lært ákaflega margt. Ég vil kannski byrja á því að þakka hv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir alveg prýðilega ræðu þegar hann mælti fyrir frumvarpi sínu sem er í reynd svar við yfirvofandi atlögu frá ESA gegn banni sem Hæstiréttur hefur staðfest á gengistryggðum lánum og lánum í erlendri mynt hér á landi.

Ég verð að segja að hæstv. fjármálaráðherra tókst venju fremur vel við að skýra þetta flókna mál út fyrir okkur og ljóst að hann hefur legið vel yfir því. Ég vil líka segja að mörgu af því sem hefur verið gagnrýnt af ýmsum félögum mínum í stjórnarandstöðunni í dag fannst mér hann svara ágætlega. Menn hafa t.d. gert því skóna að verið sé að færa Seðlabankanum of mikið vald í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Þar er ákvæði sem heimilar ráðherra að setja reglur sem í reynd veita Seðlabankanum að fengnum athugasemdum og ráðleggingum frá fjármálastöðugleikaráði að setja sérstakar varúðarreglur um eiginfjárhlutföll og hlutföll fjár sem fjármálastofnanir hafa í erlendu fé, þ.e. þær stofnanir sem stunda útlán sem byggjast á einhvers konar gengistryggðum lánum. Það hefur verið gagnrýnt af þeim sem hér hafa tekið til máls, m.a. úr hinum frelsiskennda armi Sjálfstæðisflokksins, að þetta sé of mikil forræðishyggja, en menn hafa eigi að síður sagt að hér sé verið að stíga skref í átt til frelsis, eins og hv. þm. Sigríður Andersen sagði í dag, það sé alltént verið að setja í lög að heimilt sé að taka gengistryggð lán eða lán í erlendri mynt. Ég túlka frumvarpið sem hér liggur fyrir með allt öðrum hætti. Ég tek undir að það er verið að leyfa en það er líka verið að banna. Það var athyglisvert að heyra að stallbróðir hennar, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, tók algerlega undir það sjónarmið. Sú ræða sem hér var flutt var hugsanlega að frátalinni ræðu hæstv. fjármálaráðherra einhver sú hin merkasta sem flutt var í dag. Mér fannst sem hv. þingmaður lýsti vel inn í það mál sem hér er um að ræða en tók líka upp annað mál sem sannarlega tengist peningastefnunni og því hvernig við viljum haga okkar málum til framtíðar, það er að sjálfsögðu afnám verðtryggingarinnar.

Hv. þingmaður sem hér talaði á undan, stallsystir mín Katrín Júlíusdóttir, velti því upphátt fyrir sér í ræðustól hvað ylli því að enn væri ekki farið að glitta í það frumvarp sem þingflokkur og forusta Framsóknarflokksins lofaði í kosningunum að mundi verða eitt af hinum fyrstu verkum sem hún hygðist vinna, þ.e. frumvarp um afnám verðtryggingar. Hv. þingmaður vísaði til þess að í orðaskiptum hennar og hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, hefði komið fram, sem reyndar var síðan slegið í gadda í skýrslu sem mikið hefur verið til umræðu um afnám verðtryggingar, að þegar yndi fram um árið 2016 þá yrðu í áföngum tekin skref sem að lokum mundu leiða til afnáms verðtryggingarinnar. Jahá, herra forseti, ég á eftir að lifa þann dag. Og ég verð að segja það, þó að mín ágæta stallsystir sé horfin úr salnum, að mér þótti henni ekki vel í pólitíska ætt skotið að sjá ekki að bragði undir þessum umræðum, eins og reyndar hv. þm. Helgi Hjörvar benti á áðan, hvað það er sem veldur því að það frumvarp er ekki fram komið. Það er að sjálfsögðu andstaða Sjálfstæðisflokksins.

Í stillilegri ræðu sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason flutti í dag, sá ágæti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hljóp þó í nokkurn storm, að ég segi ekki á köflum hávaðarok, þegar hann minntist á þetta. Það er ljóst að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason lýsti mjög harðri andstöðu við það að fetuð yrði sú slóð sem mundi leiða til afnáms verðtryggingar. Það er skýringin á því sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir velti fyrir sér áðan.

Hv. þingmönnum Framsóknarflokksins hefur ekki orðið mjög tíðförult í ræðustól í þessari umræðu. Ég skil það vel. Þótt stundum hafi hér í þunnskipuðum röðum þingmanna í salnum sést glitta í einn og einn hv. þingmann Framsóknarflokksins þá hafa þeir verið fáir, einhverjir hafa setið hér og einn og einn komið í gættina, en einungis einn þeirra hefur talað, hv. þm. Frosti Sigurjónsson. Honum vil ég þakka fyrir skýra og málefnalega ræðu, en hann kveinkaði sér þó undan því að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu í ræðum sínum spurt eftir því hvenær verðtryggingarfrumvörpin kæmu fram. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði að þetta væru óskyld mál, en þetta eru ekki óskyld mál. Staðreyndin er nefnilega sú að Framsóknarflokkurinn háði ekki kosningabaráttu sína út á það að leiða í lög að heimila aftur að veita gengistryggð lán. Framsóknarflokkurinn háði baráttu sína á tvenns konar stöplum og annar þeirra var sá að verðtryggingin, sem formaður flokksins og hæstv. forsætisráðherra taldi einhverja verstu uppáfindingu andskotans það sem af er eilífðar til þessa, yrði afnumin. Það kemur í ljós með þetta kosningaloforð eins og ýmis önnur að ekkert bólar á því. Það sem veldur því að fullkomlega lögmætt er af okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar að spyrja eftir því þegar við ræðum gengistryggð lán og frumvarp sem á að heimila það er einmitt hvernig það frumvarp er til orðið.

Eins og ég gat um í ræðu minni í upphafi er frumvarpið svar við áreiti frá ESA. Með öðrum orðum, það eru tilskipanir Evrópusambandsins sem hér er verið að lúta. Ég segi eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í dag, við skulum skoða það í fagnefnd þingsins. Menn eiga ekki að kaupa allt óséð. Það sem er hins vegar að gerast hér og er auðvitað hlálegt og nöturlegt og setur Framsóknarflokkinn í dálítið kaldhæðniljós, er að flokkurinn kemur hér knékrjúpandi enn einu sinni fyrir ESB-valdinu án þess að láta reyna á það hvort vera kunni að sjónarmið löggjafans á síðasta kjörtímabili um að banna þessi lán og í öðru lagi staðfesting Hæstaréttar á því líka sé eftir allt saman hin rétta og það sé ekki rétt að fara eftir þessum skýru fyrirmælum ESA. Þetta segi ég vegna þess að það hljómar þverstæðukennt að þegar eitt samfélag hefur meira og minna farið á hvolf m.a. út af því hvernig þessum tilteknu lánaflokkum var beitt skuli menn halda því fram að það sé í andstöðu við reglur EES-samningsins að ætla sér að halda því banni við. Ég held því að menn eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar og náttúrlega hv. þm. Frosti Sigurjónsson þurfi að fara ákaflega vel ofan í þetta. Það er þetta sem mönnum finnst vera andstæður. Það er þverstæða að Framsóknarflokkurinn kemur hér með frumvarp til þess að þjóna þeim herra sem hann svívirti sem mest og taldi óalandi og óferjandi áður, þ.e. stóra kaupfélaginu úti í Brussel, áður en einu sinni sér glitta í frumvarp um afnám verðtryggingar.

Hér hafa líka, herra forseti, spunnist umræður, m.a. af hálfu hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, um þá fyrirætlan Framsóknarflokksins að svara loforði og uppfylla loforð sitt um afnám verðtryggingar með því að banna hin svokölluðu 40 ára lán, Íslandslánin. Ég verð að segja að ég get ekki annað en tekið undir með því sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason og í reynd líka þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði í þessari umræðu, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sögðu að það væru engar málefnalegar ástæður til þess. Nú veit ég vel að 40 ára lánin eru þannig að þeim má vel lýsa svo að þeir sem þau taka séu að tryggja að fyrstu 15 árin af lánstímanum séu þeir í reynd leiguliðar hjá sjálfum sér. En ég segi það, herra forseti, að ef ég ber saman stöðu þess manns sem á öruggt skjól undir þaki sem keypt er með þeim hætti annars vegar og hins vegar ungrar fjölskyldufyrirvinnu sem þarf að berjast án þess að eiga húsnæði á þeim frumskógarmarkaði sem ríkir núna á leigumarkaði, þá er ekki spurning hvað ég mundi velja. Að sjálfsögðu mundi ég velja 40 ára lánin. Það getur vel verið að þau séu þegar upp er staðið dýr og erfið og það væri æskilegt að heimurinn væri öðruvísi, en hann er svona. Miðað við þær aðstæður þá get ég ekki annað en sagt eins og hv. þm. Oddgeir Ottesen sem hér datt inn sem varaþingmaður lýsti í sinni fyrstu ræðu, sem gekk fram af núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, að með því að taka af þau lán væri verið að svipta þann hóp sem vegna æsku eða annarrar stöðu er oft í erfiðustu aðstöðunni til þess að verða sér út um húsnæði.

Það var ekki ég sem leiddi þetta inn í umræðuna. Það voru aðrir menn, m.a. hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason. En ég vil nota tækifærið til þess að fagna því að þetta kom algjörlega skýrt fram í umræðunni að hér hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað gegn því að 40 ára lánin væru afnumin. Þau hafa talað gegn afnámi verðtryggingar. Þá sjáum við auðvitað hvernig sættin í þessum málum er millum stjórnarflokkanna.

Herra forseti. Tvennt vil ég að lokum nefna. Það hefur verið gagnrýnt m.a. af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og stallsystur minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og ýmsum fleirum að farin skuli vera það sem menn hafa kallað fjallabaksleið, leið krókanna, til þess að koma fyrir því kerfi sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill beita til þess að friðþægja gagnvart ESA. Ég verð hins vegar að segja að ef menn ætla sér á annað borð að samþykkja frumvarpið, sem ég útiloka ekki að ég muni að lokum samþykkja, tel ég að sú leið sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leggur til sé betri en sú beinlínis að slá fyrirætlanir hans og áform í gadda í lögum. Sú leið að setja þetta inn í reglur og gefa þannig Seðlabankanum færi á að laga sig hratt að aðstæðum sem kunna að breytast skjótt á markaði, að fengnum tillögum fjármálastöðugleikaráðs, tel ég að sé farsælla. Ég held að sé allt of þungt í vöfum ef menn ætluðu sér að fara þá leið að keyra frumvörp í gegnum þingið til þess að ná fram þessum breytingum. Mér finnst mikilvægt að liggi fyrir að ég er ekki að slá frumvarpið út af borðinu. Sú leið sem hæstv. fjármálaráðherra fer er ágæt að mínu viti. Það getur líka vel verið, svo það komi fram af minni hálfu, að miðað við þær aðstæður sem við búum við sé nauðsynlegt að fara þessa leið til framtíðar. Það breytir ekki hinu að kjarninn í gagnrýni minni á frumvarpið er að það undirstrikar skil og gliðnun á millum obba íslensku þjóðarinnar annars vegar og hins vegar þeirra sem stundum eru kallaðir eina prósentið, þeirra sem eiga ótrúlega stóran hlut af auði Íslendinga. Enginn af þeim sem tók til máls í umræðunni í dag orðaði þetta betur en hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sem sagði að þetta byggi til örlítinn hóp sem einn gæti hugsanlega nýtt sér lán af þessu tagi á þeim tíma þegar þau eru hagstæðust á markaði. Það er nefnilega málið. Ræflar eins og ég og ýmsir hv. þingmenn geta ekki notfært sér þetta jafnvel þó að þau væru á einhverjum tíma hagstæðustu lánin í boði. En það geta menn eins og hæstv. forsætisráðherra, það geta stórútgerðarmennirnir, það getur þessi örlitli partur af íslenska samfélaginu sem á gnótt fjár. Ég er jafnaðarmaður og ég vil ekki búa til þau skil. En ef hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason stendur (Forseti hringir.) við þau orð sín að finna leiðir til þess að eyða þessu en ná samt fram markmiðum frumvarpsins, þá getur vel verið að ég styðji (Forseti hringir.) þetta mál með glöðu geði.