144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og hann mun væntanlega freista þess að glíma við að svara síðari spurningu minni í hinu fyrra andsvari á eftir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem getur alveg örugglega reifað það af sinni miklu reynslu og pólitísku yfirsýn, hvaða púsluspil við erum með í höndunum, þ.e. við erum með ákveðin púsl í höndunum sem er hluti af heildarmynd, hluti af pólitískri heildarmynd, þar sem verið er að færa samfélagið í áttina frá jöfnuði yfir til aukins ójöfnuðar. Þetta er eitt af fjölmörgum þingmálum sem við höfum verið að glíma við og fjalla um hér í þinginu, allt frá síðustu kosningum, sem eru til þess fallin að draga úr jöfnuði í samfélaginu sem þó var aukinn í tíð síðustu ríkisstjórnar við fordæmalaus skilyrði. Þetta annars vegar og hins vegar það sem ég nefndi áðan í andsvari líka, þ.e. samspilið milli kosningaloforða, stórra kosningaloforða og þeirra efnda sem eru ekki miklar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, það sem af er þessu kjörtímabili, stærsta kosningaloforð allra tíma sem snerist um skuldaleiðréttingar í þágu heimilanna í landinu, afnám verðtryggingar o.s.frv. Hversu langt erum við komin í því? Hvaða húsbónda erum við að hylla í þessu frumvarpi andspænis þeim sem maður hefði haldið að Framsóknarflokknum þætti mikilvægara að sinna, sem voru kjósendurnir vorið 2013?