144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Guðinn sem hylltur er heitir mammon. Stefnan sem maður vonaðist til að gægðist einhvers staðar fram í þessu og mörgum öðrum frumvörpum vegna atbeina Sjálfstæðisflokksins er félagshyggja, eitthvað sem okkar flokkar hafa oft getað starfað með og maður hefði vænst þess að einhver slíkur arfur úr fortíðinni gægðist stundum upp úr moldinni hjá þeim, það gerðist ekki oft. Það er svarið við þessu.

Varðandi Seðlabankann og þann milda ágreining sem er hugsanlega millum mín og míns eigin flokks hins vegar og hv. þingmanns er að ég held að það gefi samfélaginu eða stjórnvaldinu aukin færi á að bregðast hratt við. Það kann að vera þörf á því. En ástæðan fyrir því að ég er ekkert smeykur við að færa Seðlabankanum þetta vald er, þó að hann hafi að vísu litförótta fortíð svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að ég hef verið giska ánægður með hvernig Seðlabankinn hefur brugðist við seinni árin og ég hef mikla trú, ekki bara á seðlabankastjóranum heldur líka kjarnanum sem þar mótar hugmyndafræði, því að þeir eru að ná ákveðnum árangri. Ég tek eftir því að sú stefna sem virðist í reynd, enn þá að minnsta kosti, vera fylgt varðandi afnám gjaldeyrishafta, sem ég tel vera mikilvægt takmark, er sú hin sama og Seðlabankinn akkúrat og þessi kjarni mótaði með fyrrverandi ríkisstjórn. Ég hef sem sagt trú á þeim. Mér er ekki farið eins og hæstv. forsætisráðherra sem hefur bókstaflega, að minnsta kosti stærsta partinn af tímanum frá kosningum, fyrir kosningar og til dags dato lýst vantrausti, dregið þó úr því, og enn þá efasemdum um Seðlabankann og seðlabankastjórann. Ég hef trú á þeim. Ég tel að þeir séu færir um að bregðast hratt við og skynsamlega sér í lagi af því að þeir eiga ekki að gera það fyrr en þeir hafa fengið (Forseti hringir.) ráðslag með fjármálastöðugleikaráði.