144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég er svo heppinn að vera einn þeirra þingmanna sem fengu að taka að sér að verða talsmenn barna á Alþingi og undirritaði yfirlýsingu um það á 25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember síðastliðnum. Heppinn, segi ég vegna þess að þetta er áhugaverðasta verkefni sem ég get hugsað mér. Sá áhugi hefur ekki minnkað við að kynna mér barnasáttmálann.

Óþarft er að taka fram að barnasáttmálinn er ekki bara mikilvægur mannréttindasamningur sem Íslendingar hafa undirgengist heldur hefur samningurinn verið tekinn í íslensk lög. Í barnasáttmálanum eru sérstök ákvæði um skyldur aðildarríkja til að tryggja að andlega eða líkamlega fötluð börn njóti „fulls og sómasamlegs lífs“ og að stuðlað skuli að „sjálfsbjörg þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu“.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru einnig mörg ákvæði sem varða rétt barna sérstaklega. Íslendingar hafa ekki enn fullgilt þann samning. Við verðum að drífa í að reka af okkur það slyðruorð og það er í gangi. Það er því miður ekki að ástæðulausu sem sérstök ákvæði um fötluð börn eru í þessum tveimur mannréttindasamningum því að mjög víða í heiminum eru þau útilokuð, þola mikinn mismun og meiri skort en aðrir.

Undanfarna daga hef ég heimsótt hagsmunasamtök sem vinna fyrir fötluð börn og börn með ýmiss konar raskanir og hef meðal annars fundað með forsvarsfólki Þroskahjálpar, ADHD-samtakanna, Einhverfusamtakanna og Sjónarhóls. Það hafa verið ánægjulegir fundir með frábæru fólki sem vinnur af mikilli hugsjón við að bæta lífsgæði barna og aðstandenda þeirra. En það hefur ekki verið ánægjulegt að heyra þau öll segja frá skorti á viðeigandi stuðningi og greiningum, mjög löngum biðlistum og ófullnægjandi fræðslu fyrir fagstéttir um þarfir fatlaðra barna og barna með raskanir. Við ættum ekki að tala mikið um að íslenskt samfélag byggist á mannréttindum og jöfnum tækifærum þar til þetta hefur verið lagað. Það er ekki bara spurning um mannréttindi, heldur er þetta sóun á miklum mannauði og þar með á beinhörðum peningum.