144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil vekja athygli á ályktun sem afhent var Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í gær, en þar segir, með leyfi forseta:

„Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. – Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fordæma ofbeldi gegn öllum einstaklingum og sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu félagslega, og hvetja yfirvöld til að taka ofbeldi gegn konum alvarlega og styrkja lög um nálgunarbann.“

Í kjölfar hæstaréttardóms sem féll nýlega um að fella úr gildi nálgunarbann karlmanns sem grunaður er um ofbeldi á þáverandi sambýliskonu sinni ákváðu þessi félagasamtök að senda frá sér sameiginlega ályktun og vekja athygli á að tímabært væri að endurskoða lög um nálgunarbann og styrkja stöðu brotaþola, en á meðal brotaþola eru oft konur af erlendum uppruna og hafa þær ekki eins sterkt bakland og öryggisnet og margir. Málum um nálgunarbann hefur fjölgað mjög fyrir dómstólum undanfarið og er vakin athygli á því að þrjú af fimm málum hafa verið felld niður það sem af er þessu ári. Félögin telja að hagur og öryggi brotaþola eigi að vera í fyrirrúmi og að með þessum dómi sé verið að senda röng skilaboð til fórnarlamba heimilisofbeldis.

Ég tel þess vegna mikilvægt að Hæstiréttur og löggjafinn bregðist við því ákalli sem þarna er á ferðinni. Það er mjög mikilvægt og við þurfum að vinna betur með þessi mikilvægu (Forseti hringir.) lög og skoða þessi mál því að það verður að tryggja (Forseti hringir.) öryggi fórnarlamba heimilisofbeldis.