144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar, en hann ræddi m.a. um hagnað bankanna og vaxtakjör í störfum þingsins í gær. Það hefur verið áberandi í fréttum undanfarna daga að Arion banki og Íslandsbanki séu að hagnast verulega. Á sama tíma heyrum við fréttir af því að í of mörgum tilvikum séu útlánsvextir að hækka en innlánsvextir að lækka. Það er með ólíkindum að útlánsvextir hækki á meðan stýrivaxtalækkanir eiga sér stað í einhverjum tilvikum.

Þær ákvarðanir bankanna að bjóða upp á lakari lánakjör til einstaklinga og heimila eru ekki ásættanlegar, sérstaklega ef við sjáum miðað við hagnaðartölurnar, að svigrúmið sé svo sannarlega til staðar. Það hefði verið afar jákvætt og kannski jafnvel fyrir ímynd þessara stofnana að sýna sanngirni í viðskiptum við einstaklinga og heimili landsins, leyfa þeim að finna fyrir því svigrúmi sem virðist svo sannarlega vera til staðar. Einnig hafa bankarnir verið að bæta inn nýjum gjaldskrárliðum sem koma harðast niður á þeim sem koma og sækja þjónustu í bankana. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendasamtökunum kemur sú gjaldtaka harðast niður á eldri borgurum og þeim sem greiða ekki reikninga í heimabanka sem og öðrum sem eru ekki með tölvu eða kunnáttu til að nýta sér möguleika hennar.

Þessi háttsemi fjármálastofnana er alls ekki í lagi. Ég hvet okkur öll sem hér erum að skoða þetta nánar. Við verðum að taka höndum saman til þess að tryggja betur hag neytenda. Ef okkur sem hér störfum er alvara að vinna fyrir heimili landsins þá verðum við að taka fjármálastofnanir harðari tökum, láta þær klára t.d. að endurgreiða einstaklingum sem voru með ólögmæt lán í kringum hrunið, klára að endurútreikna lán þeirra án þess að allir þurfi að fara í gegnum dómstólaleiðina og bankarnir leyfi almenningi að finna fyrir þeim jákvæðu skilyrðum (Forseti hringir.) sem eru í gangi á markaði.