144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur boðað afnám verðtryggingar og það í skrefum þar sem stefnt verður að fullu afnámi verðtryggingar og sú áætlun sett fram árið 2016. Fyrsta skrefið er að óheimilt verði að bjóða lán til lengri tíma en 25 ára. Við höfum búið við verðtryggt húsnæðislánakerfi í hartnær fjóra áratugi og afleiðingarnar höfum við margsinnis rætt og ætlað að breyta þessu kerfi, kerfi sem skapar kringumstæður þar sem lánveitandinn býr við fullvissu um að hann ávaxti krónur sínar umfram verðlagsþróun og gott betur. Lántakinn býr hins vegar við fullkomna óvissu um annað en það að hann tryggir að lánveitandi fái allt sitt á fullu verði þannig að krónur hans halda verðgildi sínu og gott betur en það, 4–6% vexti er mjög algengt að sjá.

Það er auðvitað ekkert eðlilegt við kringumstæður þar sem lánveitandi býr við fullvissu og lántaki við fullkomna óvissu. Einhvers staðar þarna á milli ætti áætlun um að lána og taka lán að liggja. Það má jafnframt færa rök fyrir því að áhættan ætti fremur að vera hjá lánveitandanum sem hefur þekkingu, tæki og tól til þess að verja sig fyrir henni. Það er hins vegar ekki bara réttlætið og sanngirnisrökin sem ættu í mínum huga að ráða þessu. Efnahagsleg rök vega þungt og bendi ég á skýrslu sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar í því sambandi.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að nú um stundir í hálflokuðu hagkerfi ríki stöðugleiki þá er fram undan afnám hafta og kjarasamningar. Það yrði gríðarleg kjarabót og skynsamlegt innlegg í kjarasamninga að koma böndum á eldri verðtryggð lán (Forseti hringir.) og bíða ekki boðanna í að skipta yfir í óverðtryggt húsnæðislánakerfi.