144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar hægri stjórnir eru við stjórnvölinn dregur úr jöfnuði í samfélögum. Þetta er gömul saga og ný og þessi fullyrðing er studd fjölmörgum rannsóknum og greiningum, og hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er þar engin undantekning. Fjölmargar lagabreytingar og boðuð frumvörp ganga í þá átt og ætti því ekki að vera um það deilt.

Á það ber hins vegar að líta að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið hafa í löndunum í kringum okkur átt vaxandi fylgi að fagna og sem betur fer eru sífellt fleiri að gera græn sjónarmið að sínum og líka í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórnin hefur því miður ekki fylgt þeim meginstraumi og er að því leytinu til gamaldags og skortir framsýni, því að í hverju málinu á fætur öðru sem eru til umfjöllunar í þinginu eru umhverfissjónarmið sett til hliðar og önnur í forgang. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur til að mynda ítrekað fengið hlutverk eins konar umsagnarnefndar í stórum umhverfismálum eins og rammaáætlun þótt þar sé fjallað um náttúruvernd, um náttúrupassa þótt þar sé byggt á skilningi um almannarétt, um raflínur og kerfisáætlun þótt þar séu umhverfismál og skipulagsmál í forgrunni. Umhverfismálin eru auka- og hliðarmál og fastanefnd þingsins sem um þau mál fjallar situr uppi með aukahlutverk.

Svo er efnislega sótt að náttúruvernd og umhverfi í öllum þessum málum þótt allir séu til í að standa með íslenskri náttúru á tyllidögum og í hátíðarræðum. En það er ekki fyrr en á reynir, virðulegur forseti, þegar vega þarf hagsmuni langs tíma á móti skammtímahagsmunum, þegar vega þarf almannahagsmuni á móti sérhagsmunum, þegar vega þarf hagsmuni náttúru annars vegar og hagsmuni atvinnulífsins hins vegar, þá reynir á hvort menn eru reiðubúnir til að vera náttúruverndarsinnar. Og enn sakna ég þess að slíkar raddir heyrist frá stjórnarmeirihlutanum, ein einasta rödd úr 19 manna þingflokki Framsóknarflokksins, ein einasta rödd úr 19 manna þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það er dapurlegt en brýnir okkur hin til að standa vörð um þessi (Forseti hringir.) dýrmætu verðmæti í þágu komandi kynslóða.