144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er orðið verulega pínlegt að fylgjast með hverjum framsóknarþingmanninum á fætur öðrum koma í ræðustólinn og kvarta undan bönkunum. Það verður að vekja athygli þingmanna Framsóknarflokksins á því að þeir eru ekki í stjórnarandstöðu. Þeir eru í stjórnarmeirihluta og þeir hafa haft tvö ár til að setja þessum bönkum skorður um þjónustugjöld, um vexti, um hagnað. (Gripið fram í: Og skatta.) Þessir bankar starfa meðal annars með ríkisábyrgð frá þeirra eigin ríkisstjórn. Hagnaðurinn er byggður á ríkisábyrgð frá þeirra eigin ríkisstjórn en í stað þess að takmarka svigrúm bankanna er það eina sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa gert að auka svigrúmið. Nú hafa þeir komið fram með frumvarp um að leyfa bönkunum á ný að veita gengistryggð lán til fólks og fyrirtækja í landinu.

Virðulegur forseti. Það bólar ekkert á móður allra kosningaloforða, afnámi verðtryggingar, (Gripið fram í.) enda er það rangt þegar þingmenn flokksins reyna að skýla sér á bak við það að hún eigi að hefjast í lok kjörtímabilsins árið 2016. Ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn segir að afnám verðtryggingar eigi að hefjast í lok kjörtímabilsins er einfaldlega sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei samþykkt afnám verðtryggingar. Framsóknarflokkurinn setti það aldrei sem skilyrði fyrir því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að verðtrygging yrði afnumin af því að Framsóknarflokkurinn meinti ekkert með loforðinu um afnám verðtryggingar. Hann hefur bara skotið því á frest til loka kjörtímabilsins og mun þá grípa til einhverra málamyndaráðstafana til að geta sagst hafa byrjað á því sem hann hefur hvorki ætlað sér að klára né ljúka að mestu. Verðtrygging verður hér áfram við næstu alþingiskosningar eins og hún var við hinar síðustu þó að einhverjar smávægilegar takmarkanir kunni að hafa verið gerðar á henni, vegna þess að ætlunin var aldrei að efna það loforð.

Ég hvet Framsóknarflokkinn til að reyna að leysa úr fylgisskorti sínum (Forseti hringir.) í skoðanakönnunum með einhverjum öðrum hætti en að koma hér upp og kvarta undan bönkunum sem þeir sjálfir stjórna með lagasetningu.