144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla svo sannarlega að líta á skýrslu ríkislögreglustjóra, sem greiningardeild ríkislögreglustjóra kom á framfæri 20. febrúar, Mat ríkislögreglustjóra á hættu á hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum. Þar sem ég hef lesið skýrsluna verð ég að segja að mér er verulega brugðið, sér í lagi við tillögum og tilvísunum í hópa fólks sem eru skilgreindir í kaflanum Tillögur til úrbóta, að þeim verði skipuð félagsleg úrræði sem verða fyrir áhrifum róttækni, og síðan eru þessir róttæklingar skilgreindir. Það eru sem sagt anarkistar, íslamistar, róttækir hægri og vinstri menn sem eru mögulegir ógnvaldar ríkisins. Ég tek þetta mjög alvarlega, hv. þingmaður.

Ríkislögreglustjóri leggur sem sagt til að sköpuð verði sérstök félagsleg úrræði fyrir aðila eins og til dæmis mig, sem er anarkisti. Fyrir einstaklinga sem verða fyrir áhrifum róttækni í landinu verði myndaður sérstakur samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til að miðla upplýsingum um þessa einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings, sem eru þá sem sagt anarkistarnir og róttækir hægri og vinstri menn, auk þess sem lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir til að njósna um okkur.

Þetta eru þær aðgerðir sem embættið leggur til að ráðist verði í til að fyrirbyggja hryðjuverk hér á landi. Þetta finnst mér mjög alvarlegt, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Hérna er lögreglan enn og aftur að reyna að skapa ótta rétt eins og í kringum Vítisengla. Hvar eru þeir núna og ógnin í kringum þá?