144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður í þessum ræðustól minnst á lög sem við settum fyrir rúmu ári um úrræði til að hjálpa þeim einstaklingum sem ekki hafa átt aðra leið út úr skuldavanda sínum en að æskja þess að fara í gjaldþrot og var ætlunin að þau ættu að styrkja það fólk til þess. Lögin átti að endurskoða fyrir lok síðasta árs en enn bólar ekkert á frumvarpi frá hæstv. félagsmála- og húsnæðismálaráðherra um það mál. Ekki virðist vera vanþörf á að endurskoða lögin vegna þess að þau gagnast fæstum þeim sem æskja þess að fara þessa leið. Ég lýsi því eftir því að félagsmálaráðherra komi með endurskoðun á þessum lögum hingað í þingið þannig að við getum rætt þau.

Reyndar hefur félagsmálaráðherra ekki heldur sett reglugerð um þetta efni sem átti þó að gerast og er meira en ár síðan lögin voru sett. Það má kannski fagna því að sú reglugerð hefur ekki verið sett vegna þess að í drögum sem send voru út í byrjun janúar virtist sem enn ætti að þrengja að fólki sem æskir þess að fara þessa leið. Ég kalla eftir því að hinn ágæti félagsmálaráðherra, sem var mjög öflugur talsmaður þeirra sem áttu í skuldavandræðum á síðasta kjörtímabili, þingkonan Eygló Harðardóttir — nú þegar hún situr yfir þessum málum öllum saman bólar ekki á neinu. Það bólar ekkert á húsnæðisfrumvörpum sem þó voru tilbúin þegar hún kom í embættið, það bólar ekkert á frumvarpi um afnám verðtryggingar, það bólar ekkert á lyklafrumvarpi. Hæstv. félagsmálaráðherra öflugur talsmaður fyrir (Forseti hringir.) öll þessi mál hér á síðasta kjörtímabili.