144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir góða ræðu og get upplýst hv. þingmann að við getum rætt þetta mál við 2. umr. um frumvarpið um opinber fjármál og ég held að við ættum að gera það.

Ég vil að gefnu tilefni segja það alveg hreint út — vegna þess að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir ræddi það sem ég ræddi áðan um hættu á hryðjuverkum — að það er enginn hræðsluáróður að benda á hættuna á glæpagengi. Það er bara enginn hræðsluáróður. Ég vona, virðulegi forseti, og ég veit að lögreglan er að fylgjast með því og mun gera það. Því miður hefur maður séð slæma hluti hér en vonandi aldrei jafn slæma og við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég tek undir hvert einasta orð sem Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir líka á hið augljósa, að við þurfum eðli máls samkvæmt að fara varlega því að það er fín lína á milli þess að tryggja nauðsynlegt öryggi borgaranna og ganga ekki gegn borgaralegum réttindum þeirra. Það verður að fara mjög varlega. En við skulum ekki tala eins og þetta sé ekki neitt mál.

Svo vil ég aftur hrósa hv. þm. Róberti Marshall og vek athygli á því að ég hef fundið einn hv. þingmann sem þorir að gangast við að vilja ganga í Evrópusambandið. Hinir eru í leiknum, virðulegi forseti, að kanna hvað er í boði.

Ég vona og vonandi getum við gert það á eftir undir umræðunni um alþjóðlegar þingnefndir að ræða nákvæmlega þennan þátt sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi. Ég held að full ástæða sé til að ræða það undir EFTA- og ESA-þingskýrslunni og fara nákvæmlega yfir það hvaða áhrif þingmenn og einstök ríki hafa innan tollabandalagsins, Evrópusambandsins. Það skulum við fara yfir.

En ég er búinn að finna einn hv. þingmann sem vill ganga í Evrópusambandið, hinir eru enn þá í samkvæmisleiknum sem er hannaður af Samfylkingunni að kanna hvað er í boði. Ég hlakka til að (Forseti hringir.) eiga málefnalega og góða umræðu við hv. þm. (Forseti hringir.) Róbert Marshall og hvet aðra hv. þingmenn sem vilja ganga í Evrópusambandið að (Forseti hringir.) koma og gangast við því.