144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að taka þetta mál á dagskrá og fyrir að hafa leitt starfshóp innanríkisráðuneytisins sem falið var að skoða gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til lækkunar.

Skýrslan barst mér í hendur síðastliðinn mánudag og hún er nú til skoðunar í ráðuneytinu. Innanlandsflugið er einn hlekkurinn í samgöngukerfi landsins. Ég lít á það sem mikilvæga innviði þjóðfélagsins sem einnar heildar. Stefna stjórnvalda er að samþætta og samtvinna sem mest stefnu, aðgerðir og rekstur í samgöngukerfinu á öruggan og hagkvæman hátt. Við þurfum að horfa til þess hvernig þessi kerfi almannasamgangna á landi, lofti og legi geta best þjónað hinum ólíku þörfum og dreifðu byggðum landsins. Það er í raun ekki hægt að tala um einn þátt samgöngukerfisins án þess að minnast á aðra þætti.

Kostnaður við flugið er hins vegar mikill, rekstur og uppbygging flugvalla, flugleiðsaga, flugrekstur og mannahald, í öllum þessum þáttum leggjum við ofuráherslu á öryggi. Þennan kostnað greiða notendur sem eru farþegar og flugrekendur og raunar ríkið líka að talsverðu leyti. Þar að auki greiðir ríkið niður hluta af rekstri ákveðinna flugleiða eins og kunnugt er. Þetta er óumdeilt. Það er líka óumdeilt að flugið er lífsnauðsynlegur þáttur í samgöngum landsins. Það sem er umdeilt er hvernig við ætlum að reka þetta kerfi og hvernig við ætlum að skipta kostnaðinum við það. Skýrslan um gjaldtökuna í innanlandsfluginu sýnir meðal annars að opinber gjöld eru lítill hluti af kostnaði hvers farmiða. Í niðurstöðunum er bent á að niðurfelling farþega- og lendingargjalda, svo og niðurfelling virðisaukaskatts af aðföngum í innanlandsflugi, mundi skila að meðaltali 1.700–1.800 kr. verðlækkun á fluglegg.

Þetta kom mér á óvart því að í umræðunni hefur oft verið gert mikið úr því að gjöld ríkisins af flugi væru há. Ég tel því að það ráði ekki úrslitum í þessu efni og sé engin heildarlausn að fella þessi gjöld niður ein og sér, enda segir í niðurstöðum skýrslunnar að þótt þessi niðurfelling skili lægra farmiðaverði sé óvíst að hún mundi þýða fleiri farþega. Um það bil 60% farþega í innanlandsfluginu greiða farmiða sína sjálfir en 40% eru þeir sem ferðast vinnu sinnar vegna og fá farmiðann greiddan. Farþegum með innanlandsflugi hefur fækkað nokkuð síðustu tvö árin, um 2,8% á síðasta ári miðað við 2013. Farþegum um flesta áætlunarflugvelli hefur fækkað en undantekningar eru Grímsey og Húsavík. Skýringarnar á fækkuninni geta verið nokkrar en án efa vegur verðlag í innanlandsfluginu þungt.

Ætlum við að horfa upp á þessa þróun án þess að grípa inn í? Viljum við snúa þessari þróun við eða viljum við hafa kerfið nokkurn veginn óbreytt með óbreyttri aðkomu ríkisins? Ef við viljum halda innanlandsflugi, sem mér sýnist algjörlega nauðsynlegt, þurfum við að huga að því hver aðkoma ríkisins á að vera. Hún er nauðsynleg til að tryggja búsetu í ákveðnum landshlutum og samgönguyfirvöld þurfa að tryggja nauðsynlegt fjármagn í því skyni og þess vegna eru tilteknar flugleiðir styrktar.

En það má spyrja hvort aðkoma ríkisins sé nauðsynleg til að styrkja flugrekstur að öðru leyti. Á innanlandsflugið að geta þrifist á markaðslegum forsendum fyrir utan þessar styrktu leiðir? Á það að vera hlutverk ríkisins að styrkja vöxt og uppbyggingu flugfélaga? Er hugsanlegt að tækifæri séu í innanlandsfluginu þegar litið er til ferðaþjónustunnar? Hlutfall erlendra ferðamanna fer vaxandi í innanlandsfluginu og ég bind vonir við þennan vaxtarbrodd. Ég tel mjög brýnt að litið sé á frekari markaðssetningu á innanlandsflugi sem hluta af heildarsamgöngukerfi þjóðarinnar þegar farið er yfir framtíð innanlandsflugsins.