144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Starfshópur skilaði skýrslu síðasta mánudag um innanlandsflugið. Þar kemur fram að með því að hætta öllum opinberum álögum megi lækka farmiðann um 4% að hámarki. Álögur ríkisins eru nú ekki meiri en það hvað þetta varðar.

Ef lagt er til að þær verði felldar niður og ríkið komi að þá má spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Er innanríkisráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að þetta fjármagn komi til, ef hægt væri að gera það út af öllum þeim reglum sem við erum skuldbundin af? Miðað við samgönguáætlun sem við höfum séð og það sem væntanlegt er þar, þegar engir peningar eru lagðir í samgönguframkvæmdir, nánast ekki neitt, efast ég um að þeir peningar komi frá ríkisvaldinu, alla vega ekki núna.

Mér finnst athyglisvert að starfshópur á vegum ráðuneytisins skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Þá höfum við það klárt. Eftir stendur samt sem áður að fljúga lengstu leiðir úti á landi — lækka miðann þá úr 45.000 kr. niður í 43.200 eða eitthvað svoleiðis. Það er nú öll lækkunin.

En þá kemur að öðru. Hve mikið mundi kostnaðurinn aukast ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður? Það eru ekki neinar 1.800 kr. Það eru að lágmarki 10–15 þús. kr., jafnvel 20 þús. kr., sem mundu bætast við þar. Ég virði það og hef verið þeirrar skoðunar að við eigum að gefa Rögnu-nefndinni ráðrúm til að klára sína vinnu, en ég harma það hvað dregst að skila niðurstöðu, þá hef ég litið þannig á að allir ættu að sýna biðlund á meðan. Það var hins vegar ekki gert gagnvart Valsmönnum, sem sá sem hér stendur getur ekki haldið með að þessu sinni, hvað það varðar, þó að hann hafi oft haldið með Val.

Þetta er sagan. Það eru bara tveir kostir í stöðunni; Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er sem miðstöð innanlandsflugs, eitthvað breyttur að sjálfsögðu sem niðurstaða í samkomulagi við borgina ef það væri hægt; eða að flytja miðstöð (Forseti hringir.) innanlandsflugs til Keflavíkur með þeim óheyrilega kostnaði sem því fylgir, sem ég (Forseti hringir.) nefndi hér áðan, og óþægindum fyrir flugfarþega. Þá mun farþegum fækka um meira en 2% (Forseti hringir.) á ári, virðulegi forseti.