144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að flugsamgöngur skipta miklu máli og mestu máli þar sem samgöngur á landi eru erfiðar milli viðkomandi landsvæðis og höfuðborgarinnar. Flugið þjónar hlutverki almenningssamgangna fyrir þessi landsvæði og þarf því að vera hluti af almenningssamgangnakerfinu.

Það er margt sem skiptir máli í aðgengi að flugi, en fyrst og fremst er það verðlag og aðgengi að flugvelli á báðum endum flugleiða. Eftir ferð um Norður- og Austurland í nýliðinni kjördæmaviku er mér ljóst að flugið er íbúum þar hugleikið enda skiptir það miklu máli og miklar væntingar eru til breytinga á verði í framhaldi af vinnu starfshóps innanríkisráðherra, enda ekki nema von þegar fullt verð á flugi fram og til baka milli Egilsstaða og Reykjavíkur er 47.300.

Einnig kom það skýrt fram að íbúar og forsvarsmenn atvinnulífs hafa miklar áhyggjur af þróun mála varðandi Reykjavíkurflugvöll og gera kröfur til stjórnvalda um að aðgengi að höfuðborginni sé tryggt. Umhleypingar í veðurfari í vetur eru kannski lán í óláni því að þar hafa kostir neyðarbrautarinnar komið skýrt í ljós, en jafnframt hefur komið í ljós hversu vanbúin flugstöðin í Reykjavík er þegar margir þurfa að bíða þar vegna röskunar á flugi.

Varðandi Reykjavíkurflugvöll velti ég fyrir mér hver sé ábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart mannvirkjum sem byggð hafa verið þegar skipulagi er breytt. Nú er það ljóst að þjóðin, þ.e. ríkið, á flugvöllinn. Ef hann er skipulagður burt úr Vatnsmýrinni ber þá Reykjavíkurborg ekki að greiða bætur samkvæmt skipulagslögum? Eða er það hreinlega borgarinnar að kosta byggingu nýs flugvallar?

Mig langar því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort bótareglur skipulagslaga gildi ekki ef Reykjavíkurborg heldur áfram að gera atlögu að flugvellinum í krafti skipulagsvalds.