144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru mjög brýnar umræður. Ég gluggaði aðeins í skýrslu frá starfshópnum, sem var skipaður af innanríkisráðherra, um gjaldtöku í innanlandsflugi. Þetta er snúið mál og alls ekki einfalt. Það spilar inn mjög heit kartafla sem er staðsetning flugvallar en það er mjög brýnt að þetta loftæðakerfi sem landsmenn hafa aðgang að til að komast á milli staða verði ekki rofið. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um hvaða leiðir mætti reyna, prófa þetta til tveggja til þriggja ára og þá vega auðvitað þyngst gjöldin og eldsneytið. Það kom mér jafnframt á óvart hve litlu máli það mundi skipta ef hin opinberu gjöld yrðu felld niður.

Að sjálfsögðu þarf að fara í að kynna nánar fyrir erlendum ferðamönnum þennan möguleika á að ferðast um landið en þetta er fyrst og fremst mjög brýnt samgöngutæki fyrir þá sem hér búa, sér í lagi á veturna. Við vitum öll hvernig færðin er hér víða um land. Ég styð það að farið sé í tilraun með að reyna að auka farþegafjölda en ef sú tilraun mislukkast verðum við að grípa til róttækra aðgerða sem felast í einhverju meira en hér hefur verið boðað. Þá þarf að taka umræðuna um og fá nákvæmar upplýsingar um hvað mundi gerast ef til dæmis þessi þjónusta færi til Keflavíkur.