144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Gotland er sænsk eyja í Eystrasaltinu og hún minnir um margt á Ísland. Hún er hrjóstrug, þar er mikil sauðfjárrækt og hún er mjög vinsæll ferðamannastaður. (Gripið fram í.) Þangað fór ég síðastliðið sumar sem ferðamaður og tók eftir því að þegar ég keypti mér miða á netinu var lægra verð fyrir Gotlendinga. Nú er Gotland innan sænska ríkisins. Sænska ríkið er í Evrópusambandinu og um það gilda EES-reglur. Ég hef ekki kafað ofan í af hvaða ástæðu Gotlendingar geta notið þessara sérkjara miðað við aðra innan Evrópusambandsins, en mér þætti mjög athyglisvert að það yrði skoðað nánar af hálfu innanríkisráðuneytisins hvort ekki sé hægt að viðhafa slíka mismunun hér á landi líka, enda er það þannig að flugsamgöngur eru fyrir ýmsa leið til að komast á milli staða á ferðalögum, fyrir aðra vegna atvinnu en fyrir fjölmarga íbúa þessa lands eru þetta lífsnauðsynlegar samgöngur til að geta notið þjónustu og ýmissa þátta sem eru í raun eingöngu í boði hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og ég tel brýnt að kanna hvort það gæti ekki verið ein leið þannig að hægt væri að beina öllum styrkjum og niðurgreiðslum til þeirra sem reiða sig á flugsamgöngur sem grundvöll ákveðinnar velferðar.

Varðandi ræðu innanríkisráðherra tek ég heils hugar undir að það er mjög mikilvægt að auka markaðssetningu til erlendra ferðamanna og nýta þá uppsveiflu sem þar er til að fjölga í (Forseti hringir.) innanlandsflugi og þar með að efla það.