144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þær ábendingar sem þingmenn hafa varpað til mín vegna þessarar skýrslu.

Ég held að mjög mikilvægt hafi verið að fá þessa niðurstöðu fram og ekki síst það hversu lítill hluti þessar opinberu álögur eru, það sé þá bara komið á hreint hvernig hlutirnir eru og við getum talað um þetta út frá staðreyndum.

Mér finnst gott að heyra að hv. þingmenn benda á ferðaþjónustuna. Hún er gríðarlega mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi í landinu. 17% þeirra flugfarþega sem fara með fluginu á sumrin eru erlendir ferðamenn. Nú sjáum við að vetrarlagi að landið hefur fyllst af erlendum ferðamönnum líka. Ég held að veruleg tækifæri séu í því að beina markaðssetningu í þá átt að reyna að nýta flugið, þetta mikilvæga tól sem það er í heildarsamgöngukerfi landsins, og markaðssetja flugið fyrir erlenda ferðamenn.

Ég vil líka ítreka það sem ég sagði áðan vegna þeirra íslensku flugfarþega sem nýta sér flugið að það eru þó 60% af þeim sem nýta sér innanlandsflugið sem borga fyrir það sjálfir. 60%, það er líka töluvert hátt hlutfall. Fólk kemur til höfuðborgarinnar til að sækja þjónustu af ýmsu tagi.

Að lokum þetta. Vöxtur og viðgangur í innanlandsflugi felst líka í því að losa flugvöllinn í Reykjavík úr þeim fjötrum og bráðabirgðaástandi sem hann hefur verið í allt of lengi. Ég vonast til að í þeirri nefndarvinnu sem fram fer á vegum svokallaðrar Rögnu-nefndar sjáist eitthvað til lands í því, en menn verða auðvitað einhvern tímann að taka þá umræðu til enda hvernig menn sjá fyrir sér innanlandsflugið. Það er alveg ljóst að Reykjavíkurflugvöllur er dyrnar að innanlandsfluginu í landinu.