144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vera svona minnugur og rifja upp orð mín hér árið 2010 um skuldavanda heimilanna. Það er ekkert launungarmál, og ég held að ég hafi sagt það meira að segja í umræðunni núna fyrir jólin þegar ég lagði til frestun á nauðungarsölu, að auðvitað er ekki varanlegt úrræði að fresta nauðungarsölu. Það kemur auðvitað að því að við verðum að komast með þessa hluti í eðlilegt horf. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki þannig að maður þurfi að koma aftur og aftur með slíka frestun.

Af því að enn bíður stór hópur niðurstöðu í leiðréttingarmálunum verða menn hins vegar að gæta jafnræðis í því og það verður að hafa sinn gang. Síðan er auðvitað stærsta hjálpin sem fæst handa íslenskum heimilum sú að efnahagslíf þjóðarinnar komist í fastari skorður. Það hefur gjörbreyst frá árinu 2010. Við sjáum hér miklu meiri vöxt í efnahagskerfinu og sjáum fram á bjartari tíð handa heimilum í landinu. Það er hin raunverulega lausn sem skiptir öllu máli þegar við lítum til þess. Á fimm árum hefur mjög margt gerst, en það er afskaplega brýnt og ég tek undir það með hv. þingmanni, að við komumst út úr þessu tímabundna ástandi sem frestun nauðungarsölu hefur verið. Ég vona svo sannarlega að á þessu tímabili til 1. október takist okkur að ljúka þeim 5 þúsund málum sem bíða. Þetta eru feikilega mörg mál. Það sýnir okkur líka að þarna undir eru flókin mál.

Þessu verkefni þurfum við að ljúka núna. Síðan skulum við fara að efla atvinnulífið enn og aftur og áfram. Þannig hjálpum við heimilunum í landinu best.