144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Nei, frú forseti, þetta eru ekki þægileg mál og kannski eru núverandi stjórnarflokkar að átta sig á því núna að stundum hefði mátt gæta meira umburðarlyndis í röðum þeirra á síðasta kjörtímabili þegar aðrir voru að glíma við þessi geysilega vandasömu og erfiðu mál. Þá var þetta einfalt þegar stjórnarandstaðan var að rífa kjaft, svo það sé bara orðað (Gripið fram í.) eins og það var. (Gripið fram í.) Nei, en það stóð ekki á gagnrýninni og árásunum samt fyrir aumingjaskapinn allan saman og nú er þetta aðeins flóknara og erfiðara. Þetta reyndist sem sagt ekki bara pítsupöntun.

Ég heyrði verkefnisstjórann sjálfan lýsa því í útvarpinu í morgun eða í gær að það væru vonbrigði hvað þetta hefði tekið langan tíma, þetta væru flókin mál, 4–5 þús. mál, dánarbú, þar sem breytingar hefðu orðið á fjölskylduhögum o.s.frv. Það er að sjálfsögðu ekki ávísun á að neinn hlutfallslega sambærilegur fjöldi sé í þeirri stöðu að vera við það að missa húsnæði sitt. Ég geri mér ljóst að framlengingin síðast var líka þrengd, en ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér síðan hvort menn séu alveg örugglega með sitt á þurru gagnvart jafnræði (Forseti hringir.) ef málefnalegar ástæður annarra væru (Forseti hringir.) nákvæmlega jafn ríkar fyrir því að fá frestun en þeir ná henni ekki vegna þess að þeir sóttu ekki um.