144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[12:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þótt aðstæður bjóði ekki upp á langar umræður hér, ég skal leggja mitt af mörkum í þeim efnum, er það nú engu að síður þannig að þegar húsnæðismál eru á annað borð tekin hér fyrir er að mörgu að hyggja og væri hægt að tala um margt. Ég kom aðeins að því í andsvari áðan í umræðunni um húsnæðismál á síðasta kjörtímabili, ég viðurkenni það fúslega, frú forseti, að mér verður stundum heitt í hamsi þegar ég hugsa til þess hvernig margt var lagt upp og sagt á þeim tíma. Að mínu mati var talað af mikilli léttúð um þessi gríðarlega vandasömu og erfiðu mál. Það er nú mín spá, mín trú, að nú sé núverandi hæstv. ríkisstjórn að átta sig á því að það er nú meira en að segja það að greiða þannig úr öllum húsnæðisvanda almennings í landinu að allir verði hamingjusamir. Ætli það sé ekki að koma á daginn?

Ég er þá sérstaklega að vísa til „ekki-neitt-gert-umræðunnar“. Það var söngurinn hjá stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili, að ekkert hefði verið gert í húsnæðismálum. Framsóknarmenn gengu að vísu lengst allra í þeim efnum, töluðu þannig alveg fram á síðasta dag og háðu sína kosningabaráttu á þeirri forsendu að ekkert hefði verið gert varðandi húsnæðisvanda fólks í landinu. (Gripið fram í.) Nei, nei, það voru frávik frá því sem betur fer. En svo mundu menn allt í einu eftir því að eitthvað hafði verið gert þegar þessar aðgerðir komu til sögunnar, þegar fara átti að efna hið mikla kosningaloforð þá mundu menn nefnilega eftir því að heilmikið hafði verið gert og var sett inn í lögin að það skyldi allt saman dregið frá þeirri aðstoð sem menn gætu sótt um á grundvelli höfuðstólslækkunar og séreignarsparnaðar. Það reyndist alveg hellingur sem leiddi meðal annars til þess að fjöldi fólks í miklum vanda, sem áfram hefði þurft á aðgerðum og stuðningi að halda, fékk ekki neitt út úr þessu, en í staðinn fékk fullt af fólki sem er ágætlega sett heilmikla peninga í formi niðurfærslu á höfuðstól eða skattafslætti og það er að bæta stöðu sína núna ár frá ári svo miklu munar, eins og allar mælingar á hærri eignastöðu fólks í húsnæði sýna. Það mun síðar koma í ljós, held ég, að mjög mikið vantaði upp á að fyrir þeirri aðgerð, sem var á kostnað ríkissjóðs um lækkun höfuðstóls tiltekins hluta þeirra sem eru með lán á íbúðarhúsnæði, væru fullnægjandi félagslegar og kynslóðalegar leiðréttingar.

Ef við tökum stöðuna núna eins og hún hefur þróast síðastliðin þrjú ár eða kannski núna síðustu eitt til tvö ár með verulega hækkandi fasteignaverði og þegar það bætist svo við núna að verðbólga er mjög lág, umtalsvert lægri launavísitala, hvað er þá að gerast? Er þá ekki orðinn öfugur forsendubrestur? Hækka lánin þá ekki minna en launin og fasteignaverðið? Fá menn ekki til baka að einhverju leyti misgengið sem hér stóð til að leiðrétta? Jú, auðvitað. Enda er það þannig að ef þetta er skoðað í aðeins stærra sögulegu samhengi þá situr ekkert eftir af einhverjum forsendubresti nema lítils háttar hjá þeim sem keyptu eða skuldsettu sig á allra óhagstæðasta tíma á nokkrum árum fyrir hrunið, á svona þriggja, fjögurra ára tímabili og þá einkum þeim sem keyptu sína fyrstu íbúð. Það eru staðreyndir málsins. Það er veruleikinn eins og var svo skínandi vel dregið fram í nefndaráliti líklega 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem var hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Hér var leiðrétt á kostnað skattgreiðenda og á kostnað framtíðarinnar með þeim aðferðum að miklir fjármunir fara úr opinberum sjóðum til fólks sem aldrei sat uppi og situr enn síður uppi í dag með nokkurn forsendubrest. Það er betur sett eignalega og með samanburði á lánskjaraneysluvísitölu eða lánavísitölunni og launavísitölu en það var þegar það tók lánin á sínum tíma. Þeir sem tóku þessi lán, keyptu 2000 eða 1995, eru náttúrlega í bullandi plús vegna þess að þangað til hrunið varð og verðbólguskotið kom á þeim tíma hafði þróunin á löngu árabili verið nákvæmlega sú sama og hún er núna, að verðbólgan var lægri, neysluverðsvísitalan var lægri en launavísitalan eða þróun kaupmáttar þannig að þetta varð léttara og léttara með hverju árinu. Fasteignaverð hækkaði líka að raungildi á löngum árabilum þannig að það eitt og sér myndaði eign hjá fólki sem fær núna meðgjöf frá skattgreiðendum en þó fyrst og fremst frá börnunum okkar. Ef maður lítur á þetta í kynslóðalegu samhengi þá er þetta harla dapurlegt.

Þá kem ég að því sem mér finnst í sjálfu sér miklu meira máli skipta, það er staðan í húsnæðismálunum í dag og það sem fram undan er þar. Ég held að við hefðum átt að eyða meiri orku okkar í það, þingmenn, að horfa á ástandið eins og það er, stöðu ungs fólks í dag og það sem þess bíður á næstu árum, þar er ekki fallegt um að litast. Leigjendur hafa auðvitað dregið hið stutta strá hér og hafa engan sambærilegan stuðning fengið og þeir sem keyptu íbúðarhúsnæði eða voru með lán á tilteknu tímabili. Lánsveðshópurinn liggur enn óbættur hjá garði. Ég hef reynt að taka það mál upp hér ítrekað, flutt um það frumvörp og minnt á það samfellt núna í næstum tvö ár og aldrei fengið neitt nema undanbrögð frá hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutanum. Þar situr sannarlega eftir hópur sem fengið hefur mun óhagstæðari meðferð sinna mála en aðrir með verðtryggð lán. Húsnæðissamvinnufélögin, þar sem menn bera ábyrgð á lánunum á sinni eigin íbúð, hafa fengið vaxtabætur og verið meðhöndlaðir að öllu leyti eins og eigendur húsnæðis, komust ekki inn í þessa aðgerð, þannig að það eru margir ágallar á því.

Alvarlegast er þó að velta fyrir sér stöðu ungs fólks í dag. Hún er í hnotskurn svona: Segjum að ungt par á höfuðborgarsvæðinu komi úr námi, það er að fara út á vinnumarkaðinn, er til dæmis að koma heim frá námi eða er að velta fyrir sér hvernig það á að setja sig niður hér og tryggja sér húsnæði. Staðan er ósköp einfaldlega þannig að menn þurfa að eiga 5–6 millj. kr. í peningum til að sleppa í gegnum greiðslumat og geta greitt útborgun á sæmilegri þriggja herbergja íbúð. Ef þeir eiga það, ef þeir geta þetta eða fá hjálp frá aðstandendum — það eru ekki allir svo vel settir að eiga aðstandendur sem geta komið til hjálpar — þá geta þeir keypt íbúð. Það er að vísu harður slagur hér um sæmilegar íbúðir, sérstaklega á tilteknum svæðum í borginni, þá er afborgunin af lánunum kannski 120–140 þúsund á mánuði. Ef þeir ná þessu hins vegar ekki þá bíður það þeirra að slást á leigumarkaðnum þar sem leiguverð fyrir sambærilega íbúð er kannski 200 þús. kr. plús. Svona er staðan og hún er ekki gæfuleg.

Það hefði ég viljað sjá menn takast á við í staðinn fyrir að vera enn að vandræðast með framkvæmdina á hinni mislukkuðu ráðstöfun sem var niðurstaðan varðandi efnd kosningaloforðanna miklu.

Varðandi pítsupöntunina, sem ég hef stundum kallað svo vegna þess að enginn annar en sjálfur forsætisráðherra líkti ferlinu við það að panta sér pítsu, það yrði svo sáraeinfalt og væri svo flott og tæknilega vel útbúið, það var einhvern tímann í haust, held ég — þá hefur náttúrlega annað komið á daginn. Er þó ekki búið að gera neina úttekt á eða rannsókn á þeirri aðgerð, það þarf auðvitað að gera til að skoða hvernig hún kemur út og menn munu auðvitað aldrei sætta sig við að svona miklir fjármunir og svona mikil framtíðarskuldbinding sé sett á ríkið öðruvísi en að skoðað sé hvernig ráðstöfunin varð því að hér er um að ræða gríðarlegar fjárhæðir í formi beinna útgjalda ríkisins og tapaðra framtíðartekna, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Þetta þarf að gera. Þá held ég nú að margt eigi eftir að koma í ljós í þeim efnum, en auðvitað verður það ekki aftur tekið, það er vatn undir brúna, eins og sagt er.

Ég staldra aðallega við tvennt í þessu frumvarpi, ég hef nú svo sem þegar aðeins komið inn á það í andsvörum þannig að ég þarf ekki að orðlengja um það, það er spurningin um hvort tímamörkin á þessari viðbótarfrestun séu eins vel ígrunduð og mögulegt er, það sé sæmilega hafið yfir vafa að það nægi í fyrsta lagi að fresta þessu núna til 1. október 2015, eða að það sé ekki óþarflega langt, ef svo bæri undir að vonir stæðu til að þetta yrði kannski allt klárt um mitt sumar. Það skiptir máli að reyna að vera þarna eins nálægt því sem þarf en ekki hafa þennan frest lengri en ástæða stendur til, en það væri líka meinlegt og bagalegt ef menn skytu undir markið og þetta reyndist ekki nóg og þyrfti enn einu sinni að framlengja það. (Gripið fram í.)

Hitt sem ég á í ákveðnum erfiðleikum með, ég tek það fram að ég hef ekki lagst í djúpa skoðun á því sjálfur, en bara út frá almennum viðmiðum þá stendur það dálítið í mér að hér er um sértæka frestun á nauðungaruppboðum að ræða eingöngu fyrir þann hóp sem sótti um og er inni í ferlinu um höfuðstólslækkun. Það er einfaldlega vegna þess að ef margir, sem ég hef ástæðu til að ætla að sé, gætu sýnt fram á að þeir hefðu efnislega alveg nákvæmlega jafn gild rök fyrir því að fá aðeins lengri tíma til að vinna úr sínum málum, en nái því ekki vegna þess að þeir missa eignir sínar á nauðungaruppboð, gjaldi þess að hafa ekki sótt um eða ekki verið teknir til greina í þeirri sértæku aðgerð sem höfuðstólslækkunarferlið er. Það getur auðvitað verið af margvíslegum ástæðum og vissulega er hér um opinbera ráðstöfun að ræða þannig að menn geta sagt sem svo: Stjórnvöld blanda sér ekkert í það sem er úti á markaði og ræðst af samskiptum manna við lánastofnanir sínar o.s.frv. En ef ástæðurnar væru nú til dæmis að einhverju leyti samskipti við opinbera aðila, til dæmis að einhverju leyti þær að það hefði tafið fyrir því að þeir fengju botn í sín mál, gætu unnið úr þeim, kæmu því á hreint hvort þeir gætu haldið sínu húsnæði, að ágreiningur hefði verið um lögmæti lána þeirra sem hafi tekið langan tíma að fá útkljáð fyrir dómstólum, þá er nú ekki mikill eðlismunur þar á.

Ég held að þó að það hafi verið gert svona síðast að um þrengri frestun hafi verið að ræða þá finnst mér það ekki fullnægjandi til þess að segja: Nú, þá gerum við það bara aftur eins. Ég man ekki hversu vel menn fóru ofan í það hið fyrra sinnið. Ég velti því aðeins fyrir mér, ég gerði það kannski ekki sérstaklega að umtalsefni þá en geri það hér nú. Virðuleg þingnefnd hefur takmarkaðan tíma til að athuga málið vegna þess að þetta þarf að klárast hér fyrir mánaðamót. Engu að síður hefði ég gjarnan viljað sjá að nefndin í samstarfi við ráðuneytið sem hefur skoðað þetta færi aðeins yfir það og setti í nefndarálit þótt ekki væru nema einhverjar setningar um þetta, einhverja lögskýringu, þannig að manni liði betur með að þarna væri ekki áhætta tekin gagnvart því að jafnræði væri brotið á borgurunum.