144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[12:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að bregðast vel við því að málið fái skjótan framgang. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt.

Ég geri nú ráð fyrir að fulltrúi ráðuneytisins komi fyrir nefndina og svari nokkrum spurningum sem varða lagasetninguna fyrr á síðasta ári. Það var fyrir mína tíð, en ég held að þær breytingar hafi verið vel ígrundaðar sem þar voru lagðar til. Ég tel þó mikilvægt að nefndin fari í gegnum það í vinnu sinni.

Við teljum að við náum utan um þetta á þessum tíma. Við getum að sjálfsögðu ekki fullyrt nákvæmlega hvernig vinnunni verður háttað hjá ríkisskattstjóra, við vitum ekki nákvæmlega hversu flókið það er, það er ekki alveg hægt að svara því. Þetta eru hlutir sem eru með þeim hætti að það þarf að leiða þá fram.

Í þessu tilviki er þó beðið um þennan frest fram yfir sumarmánuðina, sem við vitum líka sem nýtast ekki eins vel hjá okkur í stjórnsýslunni, eðlilega af því að það eru sumarleyfi o.s.frv. En við vonumst til þess að það dugi og við getum lokið málinu með þessum hætti.