144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

framhald umræðu um raforkumál.

[13:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Málið stendur þannig að ekkert hefur gerst síðan í fyrradag. Þegar við lukum umræðu í fyrradag var málið í fullkomnu uppnámi og ekki bara vegna efnislegrar stöðu málsins, því fram hafði komið við ítarlega umræðu að málið var bæði vanbúið þegar það var lagt fyrir þingið og illa unnið af hendi atvinnuveganefndar, heldur voru samskipti milli atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar líka í fullkomnu uppnámi. Það hefur ekkert gerst síðan í fyrradag sem breytir þeirri stöðu. Henni verður að breyta. Til þess að við getum haldið umræðunni áfram þarf þrennt að gerast: Í fyrsta lagi þarf að fara yfir málefnaleg og efnisleg rök í málinu og gera það yfirvegað þannig að þinginu sé sómi að, í öðru lagi þarf að ná einhverju jafnvægi í samstarfi nefnda í þinginu og í þriðja lagi þarf að setja fram eitthvert varanlegt skapalón um það hvernig þeim samskiptum eigi að vera háttað. Það er ítrekað gert ráð fyrir því að umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) komi að málum atvinnuveganefndar sem umsagnaraðili og ef við eigum að halda áfram með þessari uppskrift (Forseti hringir.) hv. formanns atvinnuveganefndar gengur það bara ekki.(Forseti hringir.) Það gengur ekki, þá þarf að fara að endurskoða stöðu fastanefnda í þinginu og það er alvarlegri staða en við höfum séð áður.