144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ummæli um eitthvert sjálfshól hér og að sjálfsgagnrýni sé lítil séu svaraverð. Ég fór bara yfir þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í málinu innan hv. atvinnuveganefndar og þau tala fyrir sig sjálf. Ég stend við það sem ég segi að þar hafi verið vandlega fjallað um þetta mál og ég ítreka að ekki hafa komið neinar athugasemdir við það frá neinum nefndarmanna og reyndar var mjög mikil sátt í umfjöllun innan nefndarinnar.

Varðandi nefndarálit umhverfisnefndar verður að segjast að það dróst að mínu mati mjög úr hófi að umhverfisnefnd skilaði af sér áliti í málinu. Umhverfisnefnd fékk málið til sín um miðjan nóvember. Ég gerði formanni nefndarinnar grein fyrir því fyrir nokkru síðan að við værum að ljúka málsmeðferð og það lægju orðið fyrir drög að nefndaráliti hjá okkur og hvernig mál stæðu á þeim bæ og fékk í raun engin svör við því þá. (Forseti hringir.) Ég stend alveg við það að mér finnst að vönduð umfjöllun þurfi að taka til allra þátta (Forseti hringir.) mála ef menn ætla að vera með mjög mikla (Forseti hringir.) gagnrýni á málin.